Samantekt um þingmál

Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku

176. mál á 149. löggjafarþingi.
Mennta- og menningarmálaráðherra.

Markmið

Að efla og styðja bókaútgáfu á íslensku til að vernda íslenska tungu ásamt því að efla læsi.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að sett verði á fót hvatakerfi fyrir bókaútgefendur. Í því felst að bókaútgefendum yrði veittur tímabundinn stuðningur í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku. Gert er ráð fyrir að útgefendur bóka á íslensku geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum fengið endurgreiddan kostnað sem nemur 25% af kostnaði sem fellur til við útgáfuna á Íslandi, í öðrum löndum á EES-svæðinu, innan EFTA eða í Færeyjum. Lagt er til að þriggja manna nefnd fjalli um beiðnir um endurgreiðslu, sem berast skulu í síðasta lagi níu mánuðum eftir útgáfu bókar. Gert er ráð fyrir að stuðningskerfið gildi frá 1. janúar 2019 og verði tekið til endurskoðunar fyrir 31. desember 2023.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög.

Kostnaður og tekjur

Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna stuðnings við bókaútgefendur er um 300–400 milljónir kr. á ári miðað við 25% endurgreiðslu. Einnig er gert ráð fyrir einhverjum kostnaði vegna nefndar um stuðning við útgáfu bóka á íslensku og við afgreiðslu umsókna, einkum á upphafsárinu 2019.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum, s.s. þeim að lögin eiga ekki við um útgáfu opinberra aðila á bókum, að ritraðir falla undir skilgreininguna á hugtakinu bók og falla þar með undir lögin og að unnt er samkvæmt reglugerð að ákveða lægri fjárhæðarmörk en 1 milljón kr. vegna endurgreiðsluhæfs kostnaðar umsækjanda.

Aðrar upplýsingar

Skýrsla starfshóps um bókmenningarstefnu 2017. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, febrúar 2018.


Síðast breytt 26.06.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.