Samantekt um þingmál

Umferðarlög

219. mál á 149. löggjafarþingi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Markmið

Að vernda líf og heilsu vegfarenda með auknu umferðaröryggi þar sem jafnræðis er gætt milli vegfarenda, óháð samgöngumáta, og tillit tekið til umhverfissjónarmiða við skipulagningu umferðar.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að viðurlög við umferðarlagabrotum, s.s. hraðakstursbrotum og akstri undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna, verði hert, leyfilegt áfengismagn í blóði lækkað, að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga um aðgerðir til að auka umferðaröryggi verði skýrari og að reglur um stöðvun og lagningu ökutækis verði hertar. Að auki er gert ráð fyrir breytingum á ákvæðum um t.d. neyðarakstur, akstur í hringtorgum og farsímanotkun. Einnig er lagt til að akstur og prófanir sjálfakandi ökutækja verði heimilaðar að fengnu leyfi Samgöngustofu og að nánar tilgreindum skilyrðum uppfylltum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi umferðarlög, nr. 50/1987 en breytingar verða á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
  • Skylt mál: ökutækjatryggingar, 436. mál (fjármála- og efnahagsráðherra) á 149. þingi (05.12.2018)

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir óverulegum áhrifum á tekjur og gjöld ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með talsverðum breytingum, m.a. þeim að börnum yngri en 16 ára er gert skylt að nota reiðhjólahjálma við hjólreiðar, heimilt er að svipta þá ökurétti sem teljast óhæfir til að stjórna ökutæki vegna neyslu lyfja og eigendur eða umráðamenn ökutækja eru ekki látnir sæta refsiábyrgð ef aðrir en þeir aka bílum þeirra gegn rauðu umferðarljósi eða gerast sekir um hraðakstur.

Aðrar upplýsingar

Löggjöf á Norðurlöndum

Danmörk
Færdselsloven   LBK nr 38 af 05/01/2017.

Finnland
Vägtrafiklag  3.4.1981/267.

Noregur
Lov om vegtrafikk   LOV-2018-05-04-16.

Svíþjóð
Lag om straff för vissa traffikbrott ( 1951:649). Síðast breytt 26.06.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.