Samantekt um þingmál

Landgræðsla

232. mál á 149. löggjafarþingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Markmið

Að vernda, endurheimta og bæta þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi og tryggja sjálfbæra nýtingu lands.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til skerpt verði á markmiðum laganna, m.a. með hliðsjón af nýjum áskorunum. Þannig er fjallað um að hverju beri að stefna í vernd og sjálfbærri nýtingu jarðvegs og gróðurs og endurheimt vistkerfa. Gert er ráð fyrir að eigi sjaldnar en á fimm ára fresti gefi ráðherra út landgræðsluáætlanir til tíu ára í senn. Einnig er lagt til að unnar verði svæðisáætlanir sem draga fram sérstöðu og áherslur eftir landshlutum. Til að tryggja sem best sjálfbæra nýtingu lands er gert ráð fyrir að reglulega fari fram mat á ástandi lands og árangri landgræðslustarfs, að sett skuli viðmið um sjálfbæra landnýtingu og að unnin skuli áætlun um úrbætur þar sem landnýting er ekki sjálfbær. Að auki er lagt til ákvæði um að leiði framkvæmdir eða landnýting til umtalsverðs rasks á landvistkerfum eða gróðri og jarðvegi þá skuli bæta fyrir það með endurheimt sambærilegra vistkerfa. Enn fremur er lagt til að kveðið verði á um hlutverk Landgræðslunnar við umsjón lands vegna landgræðslu, annars vegar lands í eigu ríkisins og hins vegar lands í einkaeigu sem ríkið hefur umsjón með samkvæmt samkomulagi við eiganda.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um landgræðslu, nr. 17/1965, og lög um varnir gegn landbroti, nr. 91/2002, en jafnframt verða breytingar á:
-Jarðalögum, nr. 81/2004,
-Lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986,
-Búvörulögum, nr. 99/1993,
-Lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013,
-Lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012,
-Lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018,
-Efnalögum, nr. 61/2013,
-Lögum um umhverfisábyrgð, nr. 55/2012,
-Lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011,
-Lögum um Landeyjahöfn, nr. 66/2008.
  • Endurflutt: Landgræðsla, 406. mál (umhverfis- og auðlindaráðherra) á 146. þingi (31.03.2017)
  • Skylt mál: Skógar og skógrækt, 231. mál (umhverfis- og auðlindaráðherra) á 149. þingi (15.10.2018)

Kostnaður og tekjur

Ný verkefni Landgræðslunnar vegna frumvarpsins sem hafa kostnaðaráhrif eru einkum ákvæði um svæðisáætlanir sem unnar verða á fimm ára fresti ásamt því að stofnunin skal leggja mat á nýtingu og ástand lands. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna þessara nýju verkefna rúmist innan fjárheimilda. Kostnaðurinn er mismikill eftir árum og líklegast mestur við gerð fyrstu áætlunarinnar og rúmast innan fjárheimilda ráðuneytisins. 

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Tillögur að inntaki nýrra laga um landgræðslu. Greinargerð starfshóps til umhverfisráðherra, júní 2012.


Síðast breytt 14.12.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.