Samantekt um þingmál

Tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki

301. mál á 149. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að auka aðgengi að fjármagni fyrir bæði nýsköpunarfyrirtæki og smærri fyrirtæki í vexti og auka stuðning við rannsóknir og tækniþróun nýsköpunarfyrirtækja.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að skattívilnun vegna hlutabréfakaupa einstaklinga verði framlengd um þrjú ár. Gert er ráð fyrir að skilyrðum sem bæði einstaklingar og félög þurfa að uppfylla þegar einstaklingar hyggjast nýta sér frádráttinn verði fækkað og einfölduð. Einnig er lagt til að hámark viðmiðunarfjárhæða skattfrádráttar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar styrkhæfra nýsköpunarfyrirtækja verði hækkað.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009.

Kostnaður og tekjur

Lauslega áætlað munu rýmri reglur um skattfrádrátt vegna hlutabréfakaupa kosta ríkissjóð um 40–50 milljónir kr. árið 2020 vegna tekna ársins 2019. Talið er að skammtímaáhrif af tvöföldun viðmiðunarfjárhæða skattfrádráttar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja verði mun meiri. Sé miðað við þá forsendu að aukningin verði 20% frá áætlun ársins 2019 yrði stuðningur kerfisins í formi endurgreiðslu eða lækkunar á tekjuskatti allt að 4 milljarðar kr.

Afgreiðsla

Frumvarpið var samþykkt með minni háttar breytingum.


Síðast breytt 11.12.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.