Samantekt um þingmál

Aukatekjur ríkissjóðs

4. mál á 149. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að uppfæra til verðlags margvísleg gjöld í lögum um aukatekjur.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að nær öll gjöldin í lögunum (dómsmálagjöld og fleiri tegundir gjalda s.s. atvinnuleyfi, ýmis vottorð og skráningar, þinglýsingar o.fl.) séu uppfærð til árslokaverðlags miðað við áætlaða vísitölu neysluverðs í desembermánuði 2018. Ekki eru þó lagðar til hækkanir á þeim gjöldum sem voru síðast hækkuð í byrjun ársins 2018 eða voru tekin upp í fyrsta sinn á því ári.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.
  • Skylt mál: Fjárlög 2019, 1. mál (fjármála- og efnahagsráðherra) á 149. þingi (11.09.2018)

Kostnaður og tekjur

Hækkunin er talin skila um 500 milljóna kr. viðbótartekjum í ríkissjóð á ársgrundvelli. Eru þær viðbótartekjur hluti af forsendum fjárlagafrumvarpsins.

Afgreiðsla

Frumvarpið var samþykkt með lítils háttar breytingum en þeim helstum að fallið var frá gjaldskrárhækkunum vegna skráningar félaga og vegna útgáfu vegabréfa til aldraðra og öryrkja og útgáfu ökuskírteina 65 ára og eldri.


Síðast breytt 03.12.2018. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.