Samantekt um þingmál

Ófrjósemisaðgerðir

435. mál á 149. löggjafarþingi.
Heilbrigðisráðherra.

Markmið

Að tryggja sjálfsforræði til að taka ákvörðun um ófrjósemisaðgerð.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til tvenns konar heimildir fyrir ófrjósemisaðgerðum, annars vegar að ósk einstaklings sem hefur náð 18 ára aldri og hins vegar á einstaklingi sem er ólögráða fyrir æsku sakir þegar ætla má að frjósemi viðkomandi hafi alvarleg áhrif á líf eða heilsu einstaklingsins. Þá er lagt til að áður en ófrjósemisaðgerð er gerð hljóti einstaklingur fræðslu um í hverju aðgerðin er fólgin, áhættur samfara henni og afleiðingar. Einnig er gert ráð fyrir að einungis læknar með sérfræðiviðurkenningu í almennum skurðlækningum, kvensjúkdómalækningum eða þvagfæraskurðlækningum megi framkvæma ófrjósemisaðgerðir og að einungis megi framkvæma ófrjósemisaðgerðir á heilbrigðisstofnunum eða starfsstofum lækna sem landlæknir hefur eftirlit með.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með lítils háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Heildarendurskoðun laga nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Velferðarráðuneytið, nóvember 2016.

Löggjöf á Norðurlöndum

Danmörk
Bekendtgørelse af sundhedsloven  LBK nr 1286 af 2/11/2018.

Noregur
Lov om sterilisering [steriliseringsloven]   LOV-1977-06-03-57.

Svíþjóð
Steriliseringslag  ( 1975:580).


Síðast breytt 08.05.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.