Samantekt um þingmál

Milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur

636. mál á 149. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að lækka kostnað söluaðila og neytenda, bæta samkeppni og stuðla að samþættingu greiðslukortamarkaða þvert á landamæri innan Evrópska efnahagssvæðisins. 

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að milligjaldareglugerð Evrópusambandsins verði veitt lagagildi hér á landi. Með henni eru sett hámörk á milligjöld vegna neytendagreiðslukorta, 0,2% af fjárhæð greiðslu vegna debetkorta og 0,3% vegna kreditkorta. Auk þess eru svæðisbundnar takmarkanir í leyfissamningum eða í reglum um greiðslukortakerfi bannaðar og mælt fyrir um aðgreiningu greiðslukortakerfa og vinnsluaðila, aukin úrræði korthafa og söluaðila til að ákveða greiðslumáta, sundurliðun þjónustugjalda færsluhirða og upplýsingagjöf færsluhirða til söluaðila. Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði falið eftirlit með lögunum, utan 4. mgr. 10. gr. gerðarinnar sem Neytendastofa hafi eftirlit með, og að brot varði stjórnvaldssektum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir óverulegum áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum á 3. gr. um stjórnvaldssektir.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/751 frá 29. apríl 2015 um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur.


Síðast breytt 15.05.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.