Samantekt um þingmál

Úrskurðarnefndir á sviði neytendamála

649. mál á 149. löggjafarþingi.
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að tryggja neytendum aðgang að skilvirkri og faglegri málsmeðferð við lausn ágreinings við seljendur og setja í því skyni umgjörð um lausn deilumála utan dómstóla.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að ODR-reglugerðinni um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu og framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1051 verði veitt lagagildi hér á landi og að ADR-tilskipunin um lausn deilumála utan dómstóla verði innleidd. Þá er lagt til að deilur milli neytenda og fyrirtækja verði að meginstefnu leystar hjá viðurkenndum úrskurðaraðilum. Lagt er til að ráðherra geti viðurkennt úrskurðaraðila samkvæmt umsókn ef hann uppfyllir ákvæði laganna. Úrskurðaraðilar, sem kveðið er á um í öðrum lögum, þurfa ekki viðurkenningu frá ráðherra en þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði ADR-tilskipunarinnar til að unnt sé að tilkynna þá til eftirlitsstofnunar EFTA. Gert er ráð fyrir að kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa verði lögð niður í núverandi mynd og að ný kærunefnd vöru- og þjónustukaupa taki við hlutverki hennar. Nýju kærunefndinni er auk þess ætlað að taka við hlutverki viðbótarúrskurðaraðila í deilumálum utan dómstóla. Til að tryggja skilvirkari neytendavernd þá er lagt til að úrskurðir kærunefndar vöru- og þjónustukaupa verði aðfararhæfir nema seljandi lýsi því yfir með sannanlegum hætti innan 30 daga frá uppkvaðningu úrskurðarins að hann uni ekki við úrskurðinn. Einnig er lagt til í samræmi við ADR-tilskipunina að ráðherra, sem lögbært yfirvald, skrái viðurkennda og lögbundna úrskurðaraðila og að skráin og uppfærslur hennar verði jafnóðum tilkynntar til Eftirlitsstofnunar EFTA. Lögð er almenn skylda á fyrirtæki til að veita neytendum upplýsingar um þann úrskurðaraðila utan dómstóla sem neytendur geta leitað til vegna ágreinings fyrirtækisins og neytanda.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um þjónustukaup, nr. 42/2000, lögum um lausafjárkaup, nr. 50/2000, og lögum um neytendakaup, nr. 48/2003.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að heildarfjárhagsáhrif á afkomu ríkissjóðs verði lítil.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1051 frá 1. júlí 2015 um fyrirkomulag framkvæmdar á starfsemi rafræns vettvangs til lausnar deilumálum á Netinu, fyrirkomulag rafræna kvörtunareyðublaðsins og fyrirkomulag samstarfs milli tengiliða sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 524/2013 um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 524/2013 frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB (reglugerð um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu (ODR)).

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda utan dómstóla og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB (tilskipun um lausn deilumála neytenda utan dómstóla (ADR)).


Síðast breytt 18.06.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.