Samantekt um þingmál

Loftslagsmál

758. mál á 149. löggjafarþingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Markmið

Að styrkja umgjörð og stjórnsýslu loftslagsmála og skerpa á ýmsum ákvæðum laganna. 

Helstu breytingar og nýjungar

Gert er ráð fyrir að hugtakið kolefnisjöfnun verði skilgreint í lögunum. Lagt er til að ákvæði laganna um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verði uppfært með það að markmiði að styrkja áætlunina sem stjórntæki til að ná markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 samkvæmt Parísarsamningnum og um kolefnishlutleysi 2040. Að auki er lagt til ákvæði sem kveður á um aðlögun að loftslagsbreytingum. Gert er ráð fyrir að loftslagsráð verði lögfest og að kveðið verði á um hlutverk og verkefni þess í lögum og sérstaklega tekið fram að ráðið verði sjálfstætt og óhlutdrægt í störfum sínum. Einnig er lagt til að kveðið verði á um loftslagsstefnu Stjórnarráðsins, ríkisstofnana og fyrirtækja í meirihlutaeigu ríkisins. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun veiti ráðgjöf til stofnana ríkisins við gerð og framkvæmd loftslagsstefnu. Enn fremur er lagt til að kveðið verði á um reglulega skýrslugerð um áhrif loftslagsbreytinga á náttúru og samfélag á Íslandi. Lagt er til að fallið verði frá því að telja upp í lögum þær stofnanir sem eru upplýsingaskyldar vegna losunarbókhalds Íslands og að í stað þess verði þær taldar upp í reglugerð. Jafnframt er lagt til að verksvið loftslagssjóðs verði þrengt og að hann muni styrkja nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsvænnar tækni, auk kynningar og fræðslu.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um loftslagsmál, nr. 70/2012.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna ráðgjafar- og eftirlitshlutverks Umhverfisstofnunar í tengslum við gerð loftslagsstefnu stofnana ríkisins nemi 15 milljónum kr. árlega og rúmist innan fjárheimilda málefnasviðs 17 Umhverfismál.

Afgreiðsla

Samþykkt með fáeinum breytingum, m.a. þeim að sveitarfélögum er gert skylt að setja sér loftslagsstefnu og Umhverfisstofnun skal veita sveitarfélögum ráðgjöf við gerð og framkvæmd slíkrar stefnu.


Síðast breytt 26.06.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.