Samantekt um þingmál

Sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins

765. mál á 149. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að gera nauðsynlegar lagabreytingar vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar á lögum um eftirlit með fjármálastarfsemi og ýmsum öðrum lögum sem nauðsynlegar eru vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Jafnframt er lagt til að kerfisáhættunefnd verði lögð niður og að hlutverki fjármálastöðugleikaráðs verði breytt. Þá er lagt til að beiting eiginfjárauka vegna kerfisáhættu, eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki og sveiflujöfnunarauki byggist á stjórnvaldsfyrirmælum í stað stjórnvaldsákvarðana líkt og nú er. Loks eru lagðar til breytingar á lagaumgjörð um eftirlit með lausu fé og stöðugri fjármögnun.

Breytingar á lögum og tengd mál

Alls er verið að breyta 30 lögum.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir að sameining stofnananna hafi bein fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með fáeinum efnislegum breytingum, m.a. þeirri að ráðherra fær ekki neitunarvald yfir beitingu þjóðhagsvarúðartækja á borð við þau sem ákvæði 58. og 61. gr. frumvarpsins varða. Aðrar breytingar voru til leiðréttingar og af tæknilegum toga.


Síðast breytt 26.06.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.