Samantekt um þingmál

Dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál á 149. löggjafarþingi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Markmið

Að íslensk stjórnvöld standi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist en á sama tíma tryggja öryggi matvæla sem og vernd búfjárstofna, auk þess að grípa til aðgerða til að bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. 

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að innflutningur á hráu kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddum mjólkurvörum verði leyfður frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), Sviss, Grænlandi og Færeyjum. Gert er ráð fyrir að dreifing ómeðhöndlaðra sláturafurða alifugla á markaði sé bönnuð nema sýnt sé fram á gagnvart opinberum eftirlitsaðilum að staðfest hafi verið að ekki hafi greinst kampýlóbakter í fuglunum. Þá er gert ráð fyrir að Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafi heimild til að leggja stjórnvaldssektir á matvælafyrirtæki sem brjóta gegn banni á dreifingu alifuglakjöts. Lagt er til að Matvælastofnun hafi heimild til skyndiskoðana og sýnatöku til rannsókna á búfjár- og sjávarafurðum sem fluttar eru til landsins frá ríkjum innan EES auk eftirlits þegar rökstuddur grunur er um að matvæli séu heilsuspillandi eða óhæf til neyslu eða geti valdið dýrasjúkdómum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993.
Lög um matvæli, nr. 93/1995.
Lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994.

Kostnaður og tekjur

Áætluð tekjuaukning ríkissjóðs vegna tolla er um 5% en erfitt er að áætla umfang stjórnvaldssekta enda eiga þær fyrst og fremst að hafa forvarnargildi. Frumvarpið hefur engin áhrif á gjöld ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum, m.a. þeirri að gildistöku laganna, fyrir utan 4. 10. og 11. gr., var frestað til 1. janúar 2020.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun ráðsins 89/662/EBE frá 11. desember 1989 um dýraheilbrigðiseftirlit í viðskiptum innan Bandalagsins til að stuðla að því að hinum innri markaði verði komið á.Síðast breytt 24.06.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.