Samantekt um þingmál

Skráning raunverulegra eigenda

794. mál á 149. löggjafarþingi.
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að tryggja að ávallt séu til staðar réttar og áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega eigendur svo unnt sé að greina og koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að innleidd verði ákvæði 30. og 31. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849, fjórðu peningaþvættistilskipunar ESB. Einnig er lagt til að tekin verði efnislega upp í íslenskan rétt þau ákvæði tilskipunar (ESB) 2018/843, fimmtu peningaþvættistilskipunar ESB, sem breyta framangreindum ákvæðum 30. og 31. gr. Með innleiðingunni er komið til móts við athugasemdir alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (e. Financial Action Task Force, FATF) sem fram komu í niðurstöðum úttektar vinnuhópsins á árinu 2017 á stöðu mála á Íslandi. Lagt er til að í fyrirtækjaskrá verði skráðir raunverulegir eigendur þeirra aðila sem falla undir gildissvið frumvarpsins. Lagt er til að skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóri, lögregla, héraðssaksóknari og tollstjóri hafi aðgang að öllum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur lögaðila. Einnig er gert ráð fyrir að skattyfirvöld hafi aðgang að öllum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur vegna skatteftirlits, upplýsingaskipta milli landa og skattrannsókna.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, og lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.

Kostnaður og tekjur

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að aukin útgjöld sem af því hljótast muni rúmast innan útgjaldaramma málefnasviðs. Heimild til að beita dagsektum og stjórnvaldssektum gæti leitt til aukinna tekna fyrir ríkissjóð en ógerlegt er að segja til um hversu háar slíkar tekjur gætu orðið.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum en þeirri helstri að gildissvið laganna er skilgreint með almennu orðalagi.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 frá 20. maí 2015 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi, um breytingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 , og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2006/70/EB („fjórða peningaþvættistilskipunin“).

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/843 frá 30. maí 2018 um breytingar á tilskipun (ESB) 2015/849 og tilskipunum 2009/138/EB og 2013/36/ESB („fimmta peningaþvættistilskipunin“).




Löggjöf á Norðurlöndum

Finnland
Lag om förhindrande av penningtvätt och av finansiering av terrorism  28.6.2017/444.

Noregur
Lov om register over reelle rettighetshavere  LOV-2019-03-01-2.

Svíþjóð
Lag om registering av verkliga huvudmän  ( 2017:631).


Síðast breytt 04.07.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.