Samantekt um þingmál

Menntun, hæfni og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla

801. mál á 149. löggjafarþingi.
Mennta- og menningarmálaráðherra.

Markmið

Að tryggja að þeir sem sinna uppeldis-, kennslu- og stjórnunarstörfum í leik-, grunn- og framhaldsskólum hafi menntun og hæfni í samræmi við störf þeirra og ábyrgð.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að í stað þriggja leyfisbréfa kennara, einu leyfisbréfi fyrir hvert skólastig, komi eitt leyfisbréf sem byggist á skilgreiningu á almennri og sérhæfðri hæfni kennara. Gert er ráð fyrir að skilgreindur sé hæfnirammi fyrir menntun kennara og skólastjórnenda með vísan til útgefinna viðmiða um æðri menntun og prófgráður.  Þá er lagt til að komið verði á fót kennararáði til að styðja við þróun hæfnirammans, sem verður ráðgefandi fyrir stjórnvöld í því efni. Einnig er gert ráð fyrir að mat á umsóknum um leyfisbréf og útgáfa þeirra færist til Menntamálastofnunar og að stofnunin gefi út undanþágur til ráðningar leiðbeinenda að fengnum tillögum undanþágunefndar kennara. Enn fremur er lagt til að skólastjórnendur beri aukna ábyrgð við mat á hæfni umsækjenda um kennslustörf.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku laganna falla úr gildi lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir óverulegum áhrifum á útgjöld ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með fáeinum efnislegum breytingum.


Síðast breytt 04.07.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.