Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum vegna skattlagningar tekna erlendra lögaðila o.fl.

269. mál á 150. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að tryggja rétta dreifingu skatttekna og skapa varnaðaráhrif gegn skattaflótta. Að heimila dótturfélögum félaga í aðildarríkjum EES og EFTA eða í Færeyjum, sem staðsett eru hér á landi, samsköttun með innlendum samstæðufélögum. Að festa í sessi undanþágu fyrir innlend samstæðufélög frá takmörkunum á reglum um vaxtafrádrátt. Að útvíkka ábyrgð og skyldu innlendra aðila í byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð á skilum á staðgreiðslu.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að ákvæði um skattlagningu erlendra lögaðila í lágskattaríkjum, svokallað CFC-ákvæði, verði endurskoðað til frekari skýringar og með hliðsjón af tillögum sem lagðar hafa verið fram á alþjóðavettvangi. Þá er lagt til að dótturfélögum félaga í aðildarríkjum EES og EFTA eða í Færeyjum, sem staðsett eru hér á landi, verði heimil samsköttun með innlendum samstæðufélögum. Einnig er gert ráð fyrir að innlendum skattaðila verði heimilt að nýta eftirstöðvar rekstrartapa hjá dótturfélagi með heimilisfesti í framangreindum ríkjum ef hann sýnir fram á að dótturfélagi hans sé ekki unnt að nýta tapið síðar í því ríki þar sem það hefur heimilisfesti. Lagt er til að festa í sessi undanþágu fyrir innlend samstæðufélög frá takmörkunum á reglum um vaxtafrádrátt. Enn fremur eru lagðar til breytingar á skattskyldu í tengslum við útleigu á vinnuafli eða annars konar vinnuframlagi starfsmanna erlendra aðila hér á landi í byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Lög um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta, tolla og gjöld, nr. 59/2017.
Lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987.

Kostnaður og tekjur

Heildaráhrif á tekjur hins opinbera eru metin um 150–300 milljónir kr. á ári þegar búið er að draga frá persónuafslátt til útsvars.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd að lokinni 1. umræðu.

Aðrar upplýsingar

Áminningarbréf Eftirlitsstofnunar EFTA til Íslands um samsköttun og nýtingu eftirstöðva rekstrartapa félaga (27. mars 2018).




Síðast breytt 07.09.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.