Samantekt um þingmál

Þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta

317. mál á 150. löggjafarþingi.
Forsætisráðherra.

Markmið

Að samræmi verði á milli ákvæða laga um þjóðlendur og þeirrar meginreglu laga um opinber fjármál að í lögum sé ekki mælt fyrir um markaða tekjustofna ríkisins og að skýrari fyrirmæli séu í lögum um til hvaða verkefna tekjur sveitarfélaga renna. Að milli ríkis og sveitarfélaga sé skilvirk verkaskipting við leyfisveitingar fyrir nýtingu lands og landsréttinda í þjóðlendum. Að áætluð verklok óbyggðanefndar samkvæmt gildandi fjármálaáætlun standist.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að leyfi fyrir nýtingu náma og annarra jarðefna verði felld undir leyfisveitingarhlutverk sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að ákvæði laganna um mörkun tekjustofna verði felld úr lögunum. Þá er gert ráð fyrir að ártali um fyrirhuguð starfslok óbyggðanefndar verði breytt í 2024. Loks er lagt til að málsmeðferðarreglum óbyggðanefndar hvað varðar eyjar, hólma og sker verði breytt.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998.

Kostnaður og tekjur

Fyrirhugaðar lagabreytingar sem lúta að málsmeðferðarreglum óbyggðanefndar eru til þess fallnar að auka líkur á að kostnaðaráætlun vegna starfa nefndarinnar samkvæmt fjármálaáætlun standist. Heimild óbyggðanefndar til að fjalla aftur um svæði þar sem málsmeðferð er lokið kann að hafa einhvern kostnaðarauka í för með sér og hið sama gildir um heimild ríkisins til að auka við þjóðlendukröfur undir rekstri mála. Ekki er búist við því að rýmkaðar heimildir rétthafa lands til að bera úrskurði óbyggðanefndar undir dómstóla eða fá þá endurupptekna fyrir nefndinni hafi teljandi fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum til lagfæringar og leiðréttingar.

Aðrar upplýsingar


Óbyggðanefnd.




Síðast breytt 07.05.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.