Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum um matvæli

318. mál á 150. löggjafarþingi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Markmið

Að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2017/625 ásamt því að einfalda regluverk, sem gildir um matvælakeðjuna, í þágu atvinnulífs og almennings.

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpið mun fela í sér breytingar á lögum í því skyni að einfalda regluverk sem gildir um matvælakeðjuna auk þess sem breytingunum er ætlað að stuðla að samræmdara og skilvirkara eftirlitskerfi fyrir matvælakeðjuna í heild sinni, sem leiðir af sér enn frekara matvælaöryggi og bætta neytendavernd. Lagt er til að Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS-rannsóknarsjóður í sjávarútvegi verði sameinaðir og við taki nýr sjóður á breiðari grunni undir heitinu Matvælasjóður. Þá er lagt til að ráðherra verði heimilað að innleiða reglugerð ESB 2017/625.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um matvæli, nr. 93/1995.
Lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994.
Búnaðarlög, nr. 70/1998.

Við gildistöku laganna falla úr gildi lög um sjávarafurðir, nr. 55/1998, og lög um slátrun og sláturafurðir, nr. 96/1997. Lög um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, nr. 89/1966, falla úr gildi 31. desember 2020.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir neinum áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. Þau ákvæði frumvarpsins sem mæltu fyrir um stofnun Matvælasjóðs og brottfall laga um Framleiðnisjóð landbúnaðarins voru tekin út. Bætt var við frumvarpið breytingu á lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, þess efnis að heilbrigðisnefnd fari með opinbert eftirlit á markaði undir yfirumsjón opinbers eftirlitsaðila til samræmis við ákvæði laga um matvæli þar sem kveðið er á um að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga sinni opinberu eftirliti á markaði. Einnig var bætt við ákvæði í lög um matvæli og lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, sem kveður á um vernd þess sem tilkynnir brot eða miðlar gögnum um það, til samræmis við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2017/625.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/625 frá 15. mars 2017 um opinbert eftirlit og aðra opinbera starfsemi sem miðar að því að tryggja að lögum um matvæli og fóður og reglum um heilbrigði og velferð dýra, plöntuheilbrigði og plöntuverndarvörur sé beitt og um breytingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 999/2001, (EB) nr. 396/2005, (EB) nr. 1069/2009, (EB) nr. 1107/2009, (ESB) nr. 1151/2012, (ESB) nr. 652/2014, (ESB) 2016/429 og (ESB) 2016/2031, reglugerðum ráðsins (EB) nr. 1/2005 og (EB) nr. 1099/2009 og tilskipunum ráðsins 98/58/EB, 1999/74/EB, 2007/43/EB, 2008/119/EB og 2008/120/EB og um niðurfellingu á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 854/2004 og (EB) nr. 882/2004, tilskipunum ráðsins 89/608/EBE, 89/662/EBE, 90/425/EBE, 91/496/EBE, 96/23/EB, 96/93/EB og 97/78/EB og ákvörðun ráðsins 92/438/EBE (reglugerð um opinbert eftirlit).


Síðast breytt 30.03.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.