Samantekt um þingmál

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

319. mál á 150. löggjafarþingi.
Félags- og barnamálaráðherra.

Markmið

Að efla stjórnsýslu, stefnumótun og framkvæmd húsnæðis- og mannvirkjamála, skerpa á stjórnsýslu byggingarframkvæmda, hagræða í rekstri hins opinbera og auka samstarf við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila á sviði húsnæðismála. Að stuðla að auknu húsnæðisöryggi landsmanna og stöðugleika á húsnæðismarkaði. Að draga úr áhættu ríkisins vegna aukinna uppgreiðslna hjá Íbúðalánasjóði og gera Íbúðalánasjóði kleift að sinna betur lögbundnum verkefnum.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að Íbúðalánasjóði verði skipt upp þannig að sá hluti starfsemi sjóðsins sem snýr að útgáfu skuldabréfa Íbúðalánasjóðs (HFF-bréfa), eldri lánastarfsemi og fjárstýringu eigna utan lánasafns, svo sem lausafjár og annarra verðbréfa, verði eftir í Íbúðalánasjóði sem mun fá nafnið ÍL-sjóður. Einnig er lagt til að sett verði á fót ný stofnun, sem fær heitið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, og að til hennar flytjist verkefni Mannvirkjastofnunar og verkefni þess hluta Íbúðalánsjóðs sem skilinn verður frá ÍL-sjóði. Þá er lagt til að stofnaður verði Húsnæðissjóður, sem taka á við þeim eignum og réttindum Íbúðalánasjóðs sem ekki verða eftir í ÍL-sjóði.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á 35 öðrum lögum.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir hagræðingu að fjárhæð um 100 milljón kr. vegna sameiningu hluta Íbúðalánasjóðs og Mannvirkjastofnunar.

Núverandi framlög til Íbúðalánasjóðs á fjárlögum vegna félagslegra útlána fara til ÍL-sjóðs eftir uppskiptinguna, samtals um 600 milljónir kr.

Áætlanir gera ráð fyrir að lán Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til fjármögnunar almennra íbúða geti verið allt að 35 milljarðar kr. miðað við uppbyggingu kerfisins til ársins 2022. Verði lánin fjármögnuð af Húsnæðissjóði með lántöku sjóðsins frá ríkissjóði, frekar en frá ÍL-sjóði, þyrfti ríkissjóður að taka þá fjárhæð að láni á markaði. Ávöxtunarkrafa á löngum verðtryggðum ríkisskuldabréfum hefur undanfarið verið á bilinu 0,7–0,8%. Ef gert er ráð fyrir 0,8% vaxtagreiðslum auk 2,5% verðbólgu í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, væru árlegar vaxtagreiðslur vegna lántöku ríkisins þá um 1,2 milljarðar kr. á ári. Gert er ráð fyrir að lánað yrði áfram til Húsnæðissjóðs á 2% verðtryggðum vöxtum og væru vaxtagreiðslur sjóðsins til ríkisins þá um 1,6 milljarðar kr. á ári. Miðað við þetta mundu hreinar vaxtatekjur ríkissjóðs hækka um u.þ.b. 400 milljónir kr. á ári.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.


Síðast breytt 13.03.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.