Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd

330. mál á 150. löggjafarþingi.
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að uppfylla í íslenskum rétti kröfur 9. og 10. gr. reglugerðar ESB nr. 2017/2394 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 2006/2004. Að lögfesta meginreglu um sáttaumleitan í lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að innleiða í íslenskan rétt ákvæði 9. og 10. gr. reglugerðar ESB nr. 2017/2394 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 2006/2004. Í því skyni eru lagðar til ýmsar lagabreytingar á sviði neytendaverndar, sem falla undir gildssvið reglugerðarinnar, og er ætlað að tryggja að lögbær yfirvöld sem fara með framkvæmd laganna hafi þær lágmarksheimildir til rannsókna og framfylgdar sem kveðið er á um í 9. gr., sbr. 10. gr. reglugerðarinnar. Einnig er lagt til að lögfesta meginreglu um sáttaumleitan, útgáfu leiðbeinandi reglna og forgangsröðunarreglu. Þá er lagt til að kveðið verði á um það með skýrum hætti að þeir sem eigi lögvarða hagsmuni geti höfðað dómsmál vegna brota gegn lögunum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005.
Lyfjalög, nr. 93/1994.
Lög um fjarskipti, nr. 81/2003.
Lög um fjarsölu á fjármálaþjónustu, nr. 33/2005.
Lög um fjölmiðla, nr. 38/2011.
Lög um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 76/2011.
Lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018.
Siglingalög, nr. 34/1985.
Lög um loftferðir, nr. 60/1998.
Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir neinum fjárhagsáhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2394 frá 12. desember 2017 um samvinnu milli landsyfirvalda sem bera ábyrgð á að framfylgja lögum um neytendavernd og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 2006/2004.


Síðast breytt 31.03.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.