Samantekt um þingmál

Búvörulög og tollalög

382. mál á 150. löggjafarþingi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Markmið

Að stuðla að auknum ábata neytenda og aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur auk þess að gæta að hagsmunum innlendra framleiðenda.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar á lagaumhverfi í þá veru að auka fyrirsjáanleika enn frekar við úthlutun tollkvóta auk þess að takmarka frekar heimildir ráðherra til úthlutunar tollkvóta. Verði það að lögum verða hinir svokölluðu opnu tollkvótar svo gott sem felldir brott. Í stað þess er lagt til að úthlutunin verði bundin í lög og tímabil byggð á sögulegri úthlutun síðastliðinna tíu ára. Lagðar eru til breytingar sem kveða á um að árstíðabundnar landbúnaðarvörur verði án tolla eða á lægri tollum á ákveðnum tímabilum. Gert er ráð fyrir að ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara verði lögð niður samhliða þeim breytingum sem verða á úthlutun tollkvóta.

Breytingar á lögum og tengd mál

Búvörulög, nr. 99/1993.
Tollalög, nr. 88/2005.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins muni hafa í för með sér veruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Gróflega áætlað gæti frumvarpið haft í för með sér 240-590 milljóna kr. lækkun á tekjum ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. T.a.m. er ráðherra gert skylt að endurskoða bæði vörur og tímabil úthlutunar á tveggja ára fresti og við það endurmat verði m.a. litið til þróunar á innlendri framleiðslu og innanlandsneyslu. Þá var viðbótartollkvóti fyrir svínasíður felldur brott og gerðar voru breytingar á tímabilum opnunar á blómkáli, hvítkáli, gulrótum, næpum, rauðkáli, kínakáli, selju og spergilkáli. Samþykkt var bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að ráðherra skuli skipa starfshóp sem falið verði að fylgjast með þróun tollverndar vegna þeirra breytinga sem frumvarpið felur í sér.

Aðrar upplýsingar

Tillögur starfshóps um úthlutun tollkvóta landbúnaðarvara. 2018.


Síðast breytt 17.03.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.