Samantekt um þingmál

Varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands

523. mál á 150. löggjafarþingi.
Forsætisráðherra.

Markmið

Að takmarka eins og frekast er unnt áhrif hagsmunaárekstra á störf æðstu handhafa framkvæmdavalds sem starfa innan Stjórnarráðs Íslands með skýrari reglum um skráningu hagsmuna og hagsmunaárekstra fyrrgreindra aðila. Með þessu móti yrði stuðlað að opnari stjórnsýslu, gagnsæi og trausti í samræmi við markmið þar um í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis frá 30. nóvember 2017.

Helstu breytingar og nýjungar

Auk þess að taka til æðstu handhafa framkvæmdavalds í Stjórnarráði Íslands og aðstoðarmanna þeirra er í frumvarpinu gert ráð fyrir reglum um samskipti hagsmunavarða og stjórnvalda. Lagðar eru til nýjar reglur sem taka til ráðherra, aðstoðarmanna ráðherra, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og sendiherra og fjalla um hagsmunaskráningu og gjafir, samskipti við hagsmunaverði, aukastörf, starfsval að loknum opinberum störfum og eftirlit með því að farið verði eftir hinum nýju lagaákvæðum sem taka gildi verði frumvarpið að lögum. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir óverulegum kostnaði fyrir ríkissjóð vegna kynningar og fræðslu um efni frumvarpsins. Einnig kann einhver kostnaður að falla til vegna eftirlits sem greinar frumvarpsins kalla á.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum, þ.á.m. þeim að sett voru strangari og skýrari viðmið vegna tilkynningarskyldu um gjafir, hlunnindi eða fríðindi, gert var skylt að birta upplýsingar um hagsmuni, gjafir og önnur fríðindi aðstoðarmanna ráðherra og ráðherra var veitt heimild til að birta slíkar upplýsingar um skrifstofustjóra og sendiherra í undantekningartilvikum.

Aðrar upplýsingar

Efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu. Skýrsla starfshóps forsætisráðherra. September 2018.

Sáttmáli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis. Nóvember 2017.

19th General Activity Report (2018) of the Group of States against Corruption (GRECO). Evrópuráðið, júní 2019.



Síðast breytt 11.06.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.