Samantekt um þingmál

Vörumerki

640. mál á 150. löggjafarþingi.
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að innleiða Evróputilskipun um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vörumerki en markmið hennar er að samræma evrópskar vörumerkjareglur, gera þær notendavænni og skilvirkari, aðgengilegri almenningi og í samræmi við nýjustu tækni.

Helstu breytingar og nýjungar

Með frumvarpinu er lagt til að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2436 frá 16. desember 2015 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vörumerki (vörumerkjatilskipunin). Í tilskipuninni felast fjölmörg nýmæli, bæði til samræmingar á nálgun aðildarríkja Evrópusambandsins og EES/EFTA-ríkjanna við skráningu, notkun og verndartíma vörumerkja en einnig ítarlegri ákvæði en áður um tengd réttindi, þ.e. félaga- og ábyrgðar- og gæðamerki, ákvæði um afurðarheiti og plöntuheiti svo dæmi séu tekin. Lagt er til að horfið verði frá þeirri kröfu að vörumerki þurfi að vera „sýnileg tákn“. Þess í stað er gert ráð fyrir að vörumerki geti verið hvers konar tákn sem annars vegar geti greint vöru og þjónustu eins aðila frá eins eða sambærilegum vörum og þjónustu annarra og að unnt sé að tilgreina þau í vörumerkjaskrá á þann hátt að greina megi með skýrum og nákvæmum hætti til hvers einkarétturinn nær. Með þessu er m.a. opnað fyrir skráningu á óhefðbundnum merkjum eins og litum og hljóði, hreyfimyndum og fleira. Einnig er lagt til að breyta skráningarskilyrðum merkja. Helstu viðbætur við almenn skráningarskilyrði merkja er höfnun á grundvelli þess að tákn sýni lögun eða aðra eiginleika sem auka verðmæti vöru svo um munar og ef merki samanstanda af eða sýna í veigamiklum þáttum eldra skráð plöntuyrkisheiti. Þá er því enn fremur bætt við með skýrari hætti en áður að hafna megi skráningu merkis ef umsókn er lögð fram í vondri trú. Þá er gert ráð fyrir að skráningaryfirvöld geti synjað um skráningu merkis að hluta. Að auki er lagt til að kveðið verði skýrar á um inntak einkaréttar til merkis en nú er, þ.e. möguleika í tengslum við beitingu réttarins, sem og takmarkanir á honum og skerpt er á rétti til að leggja bann við notkun merkis sem viðskipta- eða fyrirtækjaheiti og notkun merkis í samanburðarauglýsingum. Lagt er til að innleiða heimild þriðja aðila til að leggja fram ábendingu gegn skráningu vörumerkis. Þannig mun hvaða aðili sem er, jafnt einstaklingur sem lögaðili, geta lagt fram ábendingu vegna tiltekinnar umsóknar eftir að hún er lögð inn og áður en ákvörðun um skráningu er tekin og þarf hann ekki að hafa af því lögmæta hagsmuni. Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að flytja ákvæði laga um félagamerki, nr. 155/2002, yfir í lög um vörumerki, nr. 45/1997, og fella þau fyrrnefndu síðan úr gildi.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um vörumerki, nr. 45/1997.

Við gildistöku laganna falla brott lög um félagamerki, nr. 155/2002.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir neinum áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar


Löggjöf á Norðurlöndum

Danmörk
Bekendtgørelse af varemærkeloven  LBK nr. 88 af 29/01/2019.

Finnland
Varumärkeslag  26.4.2019/544.

Noregur
Lov om beskyttelse av varemerker (varemerkeloven)  LOV-2010-03-26-8.

Svíþjóð
Varumärkeslag  ( 2010:1877).


Síðast breytt 15.06.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.