Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar og matvæla vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu

714. mál á 150. löggjafarþingi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Markmið

Að einfalda regluverk á sviði landbúnaðar og matvæla.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að felld verði niður 12 lög í heild sinni. Lagt er til að stjórnsýsla verði gerð skilvirkari með því að afnema milligöngu ráðuneytisins og staðfestingu ráðherra. Þá er lögð til einföldun á stjórnsýslu við sauðfjármerkingar. Einnig er lagt til að lögbundið kerfi flokkunar og mats á ull verði fellt niður. Lagt er til að markanefnd, yrkisréttarnefnd og gærumatsnefnd verði aflagðar. Að auki er lögð til lenging á skipunartíma verðlagsnefndar með það að markmiði að nefndarstörf verði markvissari og minni tími fari í umsýslu vegna tilnefninga í nefndina og skipunar hennar. Lagt er til að starfsleyfisskylda vegna frumframleiðslu falli niður hjá matvælafyrirtækjum, sem starfrækja fiskeldisstöðvar og eru með gilt rekstrarleyfi samkvæmt lögum um fiskeldi. Þá er lagt til að niður falli tilkynningaskylda innflytjenda og framleiðenda fóðurs á EES-svæðinu, að undanskildu lyfjablönduðu fóðri, fóðuraukaefnum og forblöndum þeirra.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lögð er til niðurfelling 12 úreltra og óþarfra laga. Enn fremur eru lagðar til breytingar á níu lögum.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum.

Aðrar upplýsingar

Sáttmáli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis.


Síðast breytt 02.07.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.