Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna

715. mál á 150. löggjafarþingi.
Forsætisráðherra.

Markmið

Að styrkja löggjöf um jarðir, land og aðrar fasteignir með breytingum á lagaákvæðum um eignarráð og nýtingu fasteigna, þ.m.t. jarða, og um opinbera skráningu á atriðum viðkomandi landi og fasteignum.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar á heimild ráðherra í lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna til að veita aðilum frá ríkjum utan EES leyfi til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign ef þeir uppfylla ekki skilyrði laganna um íslenskan ríkisborgararétt eða skilyrði um lögheimili hér á landi. Verði frumvarpið óbreytt að lögum getur ráðherra heimilað einstaklingi eða lögaðila utan EES að öðlast eignar- eða afnotarétt yfir fasteign til beinna nota í atvinnustarfsemi og einnig heimilað einstaklingi, sem hefur sterk tengsl við Ísland, s.s. vegna hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, að eignast hér fasteign. Lögð er til breyting á þinglýsingalögum þess efnis að upplýsingar um kaupverð eignar verði meðal skilyrða fyrir þinglýsingu afsals nema skýrt komi fram að ekkert endurgjald komi fyrir hina seldu eign. Þá er lagt til að í lög um skráningu og mat fasteigna komi ákvæði um landeignaskrá, sem er hluti fasteignaskrár og inniheldur m.a. upplýsingar um eignarmörk lands í samræmdum kortagrunni. Ákvæðinu er ætlað að ryðja úr vegi hindrunum fyrir frekari uppbyggingu landeignaskrár Þjóðskrár Íslands. Lagðar eru til ýmsar breytingar á jarðalögum, þ.á.m. að markmiðsákvæði laganna verði fyllra og ítarlegra en nú og innihaldi markmið um landnýtingu í samræmi við skilgreind markmið, þ.á.m. um að land sem vel er fallið til búvöruframleiðslu verði nýtt í því skyni. Lagðar eru til breytingar á ákvæðum um lögbýli þannig að þau verði einungis stofnuð til starfsemi á sviði landbúnaðar eins og hann er skilgreindur í lögunum. Lagt er til ákvæði um skyldu til að afla samþykkis ráðherra fyrir ráðstöfun beins eignarréttar eða afnotaréttar til lengri tíma en fimm ára yfir fasteign sem fellur undir gildissvið jarðalaga ef: a) ráðstöfunin tekur til lögbýlis og viðtakandi réttar og tengdir aðilar eiga fyrir fimm eða fleiri fasteignir, sem skráðar eru í lögbýlaskrá, og samanlögð stærð þeirra er yfir 50 hekturum; b) viðtakandi réttar og tengdir aðilar eiga fyrir fasteign eða fasteignir, sem falla undir gildissvið jarðalaga, og eru samtals 1.500 hektarar eða meira að stærð. Lagt er til að lögaðilum sem eiga bein eignarréttindi yfir fasteign eða fasteignarréttindi, sem falla undir gildissvið jarðalaga, verði skylt að veita stjórnvöldum upplýsingar um eignarhald sitt. Upplýsingaskylda samkvæmt ákvæðinu mun taka til erlendra lögaðila annars vegar og hins vegar íslenskra lögaðila sem eru að 1/3 hluta eða meira í beinni eða óbeinni eigu erlends lögaðila, fjárvörslusjóðs eða sambærilegs aðila eða undir yfirráðum slíkra aðila. Lagt er til að beiðnum um landskipti fylgi ávallt staðfesting á því að breytingin samrýmist gildandi skipulagsáætlun. Lagðar eru til breytingar á ákvæðum um niðurfellingu lögbýlisréttar þess efnis að ráðherra verði ekki lengur skylt að fella lögbýlisrétt niður að ósk eiganda og að lögbýlisréttur skuli ekki felldur niður gegn rökstuddum andmælum sveitarstjórnar. Lagt er til að rétthöfum verði gert skylt að láta þinglýsa skjölum um tiltekin eignarréttindi yfir fasteignum sem falla undir gildissvið jarðalaga, þ.á.m. afsölum. Lagt er til að viðurlagaákvæði jarðalaga verði styrkt og ráðherra veitt heimild til að bregðast við brotum á ákvæðum laganna, m.a. með því að krefjast nauðungarsölu eða virkja innlausnarrétt ríkissjóðs.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966.
Þinglýsingalög, nr. 39/1978.
Lög um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.
Jarðalög, nr. 81/2004.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir auknum kostnaði Þjóðskrár Íslands vegna skráningar lands í landeignaskrá og viðhalds hennar sem falla mun á ríkissjóð. Er áætlaður kostnaður vegna þessa 80 milljónir kr. árið 2020, 83 milljónir kr. á ári árin 2021 til 2023 og 30 milljónir kr. á ári eftir það. Gert er ráð fyrir 17 milljóna kr. árlegum kostnaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis vegna nýrra verkefna sem leiða af frumvarpinu verði það óbreytt að lögum. Talið er að kostnaður við breytingar á tölvukerfum svo halda megi saman upplýsingum um eignarhald lögaðila undir erlendum yfirráðum muni verða um 12 milljónir kr. Gert er ráð fyrir því að einhver kostnaður falli til hjá sýslumönnum vegna upplýsingaöflunar úr gögnum í þeirra vörslu.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum.

Aðrar upplýsingar

Síðast breytt 02.07.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.