Samantekt um þingmál

Hollustuhættir og mengunarvarnir

720. mál á 150. löggjafarþingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Markmið

Að innleiða tilskipun ESB nr. 2019/904 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið. Með innleiðingunni er stefnt að því að draga úr áhrifum af notkun plasts á umhverfið og heilsu fólks, og vekja neytendur til umhugsunar um neyslu og umhverfisáhrif plasts, draga úr notkun einnota plastvara og styðja við notkun fjölnota vara.

Helstu breytingar og nýjungar

Með frumvarpinu verður innleidd tilskipun (ESB) 2019/904 um minnkun umhverfisáhrifa af tilteknum vörum úr plasti. Gert er ráð fyrir að bannað verði að setja á markað tilteknar einnota plastvörur og vörur úr plasti, sem er niðurbrjótanlegt með oxun. Lagt er til að óheimilt verði að afhenda einnota matarílát og bolla úr plasti án endurgjalds, og að gjaldið verði sýnilegt á kassakvittun. Einnig eru lagðar til kröfur um gerð og samsetningu tiltekinna einnota drykkjaríláta. Þá er lagt til að Umhverfisstofnun hafi umsjón með reglubundnu, opinberu eftirliti til þess að tryggja að farið sé eftir lagaákvæðum um plastvörur. Gert er ráð fyrir að stofnuninni verði heimilt að stöðva markaðssetningu vöru þar til bætt hefur verið úr ágöllum og að stjórnvaldinu verði heimilt að leggja stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila, sem brýtur gegn lagaákvæðum um plastvörur. Enn fremur er lagt til að gildissviði laganna verði breytt þannig að lögin taki til þeirrar atvinnustarfsemi þar sem afhending plastvara fer jafnan fram og efnisákvæði frumvarpsins beinast að. Þá er gert ráð fyrir að í stefnu ráðherra um úrgangsforvarnir og í svæðisáætlunum sveitarstjórna um meðhöndlun úrgangs, að því er varðar umfjöllun þeirra um úrgangsforvarnir, verði fjallað að því marki sem við á um ráðstafanir sem lúta að plastvörum og kveðið er á um í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þá er lagt til að í lög um meðhöndlun úrgangs verði bætt við fyrirmælum um að beina skuli upplýsingagjöf og fræðslu, sem ráðist er í á grundvelli laganna, sérstaklega að plastvörum, með vísan til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
Lög um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að kostnaður hljótist af auknum verkefnum Umhverfisstofnunar vegna markaðseftirlits með plastvörum en ekki kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hversu hár sá kostnaður gæti orðið.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum. Fellt var brott ákvæði um að einungis sé heimilt að setja á markað einnota drykkjarílát með tappa eða loki úr plasti ef tappinn eða lokið er áfast ílátinu. Að auki var fellt brott ákvæði 10. gr. frumvarpsins um innleiðingu á tilskipun (ESB) 2019/904 en tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn heldur er unnið að undirbúningi ákvörðunar þar að lútandi á vettvangi EFTA-ríkja.

Aðrar upplýsingar
Tillaga að aðgerðaáætlun í plastmálefnum. Samráðsvettvangur um aðgerðaáætlun í plastmálefnum, 29. október 2018.Síðast breytt 03.07.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.