Samantekt um þingmál

Fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru

725. mál á 150. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri, sem hafa tímabundið þurft að hætta alveg eða draga verulega úr atvinnustarfsemi vegna opinberra tilmæla um takmarkanir á samkomum og hafa orðið af verulegum tekjum af þeim sökum, geti sótt um styrk vegna lokunarinnar til Skattsins. Að auki er lagt til að ríkissjóður ábyrgist að fullu stuðningslán frá lánastofnunum til minni rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu og tímabundnu tekjutapi vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum til að standa undir rekstrarkostnaði þeirra.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku þeirra verða breytingar á lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997.

Kostnaður og tekjur

Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna lokunarstyrkja gæti numið allt að 2,5 milljörðum kr. Áætluð fjárhæð stuðningslána, sem yrðu með ríkisábyrgð, gæti numið 28 milljörðum kr. en ómögulegt er að segja til um hverjar endurheimtur af þessum lánum gætu orðið og af hversu stórum hluta þeirra mun reyna á ábyrgð ríkisins. Talið er að kostnaður við nefnd, sem ráðherra skipar og er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd III. kf., geti nemið að hámarki 48 milljónum kr. á ári. Um er að ræða sömu nefnd og mun hafa eftirlit með viðbótarlánum. Líklegt er talið að fjármála- og efnahagsráðuneytið greiði allan kostnað Seðlabankans af framkvæmd á veitingu stuðningslána en kostnaðarmat liggur ekki fyrir. 

Afgreiðsla

Samþykkt með þó nokkrum breytingum. Rekstraraðilar þurfa að hafa staðið skil á CFC-skýrslum þegar það á við auk upplýsinga um raunverulega eigendur. Veiting lokunarstyrks skerðir ekki möguleikann á að fá stuðningslán. Skilyrðum og fjárhæðum stuðningslána var breytt þannig að hámarksvelta skv. 2. tölul. 10. gr. hækkar úr 500 milljónum kr. í 1.200 milljónir kr. og hámarksfjárhæð stuðningslána sbr. 11. gr. var hækkuð úr 6 milljónum kr. í 40 milljónir kr. Ríkissjóður ábyrgist að fullu stuðningslán að 10 milljónum kr. en aðeins 85% af þeirri fjárhæð stuðningsláns sem er umfram 10 milljónir kr. Lánstími stuðningslána verður ekki skemmri en 30 mánuðir og nánar skal kveðið á um hann í reglugerð. Útgáfa rafrænna skuldabréfa við afgreiðslu stuðningslána var heimiluð. Refsirammi brota gegn lögunum var hækkaður úr tveggja ára fangelsi í sex ár í samræmi við önnur alvarleg brot á sviði fjármunaréttar. 

Aðrar upplýsingar
Síðast breytt 14.05.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.