Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru

726. mál á 150. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að lögaðilum með takmarkaða ábyrgð verði gefinn kostur á að fresta skattgreiðslu vegna 2019 og jafna á móti tapi ársins 2020 þegar það raungerist. Aðgerðin leiðir til þess að fyrirtæki, sem sjá fram á tap á yfirstandandi ári, geta sótt um frekari frestun á greiðslu tekjuskatts þar til álagning næsta árs liggur fyrir og lækkað skattkröfuna, sem nemur reiknaðri skatteign af tapi ársins, að uppfylltum skilyrðum laganna. Hámark þess skatts sem heimilt verður að fresta greiðslu á er 20 milljónir kr. Úrræðinu er fyrst og fremst beint að litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þá eru lagðar til reglur, sem taki gildi vegna áranna 2020, 2021 og 2022, í tengslum við niðurfærslu skulda lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri vegna greiðsluerfiðleika. Lögð er til breyting til bráðabirgða á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, sem lýtur að frádráttarhlutfalli frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja árin 2021 og 2022, vegna útlagðs kostnaðar þeirra á rannsóknar- og þróunarverkefnum, sem þau eru eigendur að, og hlotið hafa staðfestingu Rannsóknamiðstöðvar Íslands. Gert er ráð fyrir að frádráttarhlutfallið hækki úr 20% í 25%. Einnig eru lagðar til breytingar til bráðabirgða, sem lúta að því að hækkaðar verði núgildandi viðmiðunarfjárhæðir skattfrádráttar frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022, vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja. Að auki er lagt til að sveitarfélög eða stofnanir og félög, sem eru alfarið í eigu þeirra, öðlist tímabundinn rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað vegna byggingar, viðhalds eða endurbóta á öðru húsnæði en íbúðar- og frístundahúsnæði, sem alfarið er í eigu þeirra, til þess að liðka fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir. Þá er lagt til að rýmkuð verði heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu, sem er liður í að bæta fjárfestingarumhverfi nýsköpunar hér á landi, t.d. með því að auðvelda stofnun nýsköpunarsjóða. Lagt er til að heimild lífeyrissjóða til fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum eða hlutum í hverjum sjóði um sameiginlega fjárfestingu verði hækkuð tímabundið í 35%. Með breytingunni þyrftu þrír lífeyrissjóðir að hafa aðkomu að sjóði í stað fimm í dag, sem myndi auðvelda fjármögnun slíkra sjóða og styðja við áætlun stjórnvalda um að bæta fjárfestingarumhverfi nýsköpunar hér á landi. Lagt er til að fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði heimilt að veita framlög til sveitarfélaga vegna framkvæmda, sem hafa þann tilgang að bæta aðgengismál fatlaðra í byggingum og útisvæðum á vegum sveitarfélaga. Einnig er lagt til að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði veitt heimild til að nýta fjármuni sjóðsins til að greiða almenn framlög, grunnskólaframlög og framlög vegna málefna fatlaðs fólks á árinu 2020. Að auki er lagt til að tímabilið, sem lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020, taka til, verði framlengt þannig að þau taki til þeirra tilvika þegar framangreindir einstaklingar sæta sóttkví á tímabilinu 1. febrúar 2020 til og með 30. september 2020. Lagt er til að mennta- og menningarmálaráðherra verði á þessu ári heimilt með reglugerð að útfæra fyrirkomulag á greiðslu sérstaks rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla vegna þess víðtæka rekstrarvanda sem steðjar nú að einkareknum fjölmiðlum vegna faraldursins.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003.
Lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009.
Lög um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.
Lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.
Lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 24/2020.
Lög um fjölmiðla, nr. 38/2011.

Kostnaður og tekjur

Lagabreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu munu hafa neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs til skemmri tíma litið verði frumvarpið óbreytt að lögum. Gróflega má áætla að tillaga frumvarpsins er lýtur að nýtingu rekstrartaps með afturvirkum hætti geti lækkað tekjur ríkissjóðs um allt að 13 milljarða kr. á þessu ári. Til lengri tíma litið jafnast það út og hefur takmörkuð fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð þar sem gert er ráð fyrir að fyrirtæki muni eiga minna yfirfæranlegt tap á móti hagnaði næstu ára og greiða þar af leiðandi fyrr tekjuskatt á ný en ella. Umfang fjárhagslegrar endurskipulagningar lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri næstu ár er erfitt að meta að svo stöddu og þar með hvaða áhrif frestun og möguleg eftirgjöf skattlagningar vegna niðurfærslu skulda kunni að hafa á ríkissjóð. Hækkun á frádráttarhlutfalli frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja vegna útlagðs kostnaðar þeirra af rannsóknar- og þróunarverkefnum leiðir til þess að stuðningur við fyrirtækin í formi skuldajöfnunar á tekjuskatti og beinna endurgreiðslna eykst árin 2021 og 2022 vegna rekstraráranna 2020 og 2021. Hækkun á hámarksfjárhæðum frádráttarbærs kostnaðar hefur viðbótaráhrif til hækkunar á stuðningnum. Samanlagt má áætla að stuðningurinn aukist um 3 milljarða kr. Sé tekið mið af fyrirliggjandi áætlunum sveitarfélaga um framkvæmdir á árinu 2020 og sé enn fremur litið til endurgreiðslna samkvæmt hliðstæðri heimild sem var í gildi á árunum 2009–2014 má áætla að endurgreiðslur til sveitarfélaga skv. 3. gr. frumvarpsins gætu orðið um 1 milljarður kr. sem dreifast muni á árin 2020 og 2021. Ekki eru forsendur til að leggja mat á á hugsanlegan fjölda þeirra sem sæta gætu sóttkví fram til 30. september 2020 og þar með átt rétt á greiðslum í samræmi við frumvarpið. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla verði allt að 350 milljónir kr.

Afgreiðsla

Samþykkt með töluverðum breytingum. Skattinum verður ekki gert að leggja fram álagningarskrá fyrir hvert sveitarfélag að lokinni álagningu skattaðila á árinu 2020. Gerðar voru breytingar á hlutfalli skattfrádráttar og hámarksfjárhæða með það að markmiði að styðja enn frekar við íslenskt nýsköpunarumhverfi. Þá var aukið við hvata til einstaklinga til að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum. Afmarkað var nánar eftir hvaða reglum og viðmiðum ráðherra ætti að fara við mótun reglugerðar um sérstakan rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla. Samanlögðum listamannalaunum árið 2020 var fjölgað tímabundið úr 1.600 mánaðarlaunum í 2.200.

Aðrar upplýsingar


Varnir, vernd og viðspyrna gegn efnahagslegum og félagslegum áföllum - Framhaldsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldrus kórónuveiru (21. apríl 2020).


Síðast breytt 14.05.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.