Samantekt um þingmál

Matvælasjóður

728. mál á 150. löggjafarþingi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Markmið

Að styrkja verðmætasköpun við framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu matvæla. Frumvarpið er liður í ráðstöfunum hins opinbera til örvunar hagkerfisins í framhaldi af samdrætti sem orðið hefur vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. 

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að settur verði á fót nýr sjóður, Matvælasjóður, til að styrkja verðmætasköpun í þróun, vinnslu og markaðssetningu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Jafnframt verði AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi sem og Framleiðnisjóður landbúnaðarins lagðir niður.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku þeirra verða breytingar á búnaðarlögum, nr. 70/1998, lögum um skattskyldu lánastofnana, nr. 65/1982, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, nr. 94/1996, og lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Þann 31. desember 2020 falla svo úr gildi lög um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, nr. 89/1966.

Kostnaður og tekjur

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir fjárhagsáhrifum á ríkissjóð þar sem gert er ráð fyrir að kostnaði verði forgangsraðað innan viðkomandi útgjaldaramma málefnasviðs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í fjármálaáætlun. Hins vegar er gert ráð fyrir að í fjáraukalögum 2020 verði 500 milljóna kr. viðbótarfjármagni varið til sjóðsins.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Varnir, vernd og viðspyrna gegn efnahagslegum og félagslegum áföllum - Framhaldsaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldrus kórónuveiru (21. apríl 2020).


Síðast breytt 29.04.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.