Samantekt um þingmál

Svæðisbundin flutningsjöfnun

734. mál á 150. löggjafarþingi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Markmið

Að tryggja að þjónusta með olíuvörur haldi áfram í viðkvæmum byggðum, a.m.k. á meðan orkuskiptin fara fram.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara verði felld úr gildi. Með því móti er það stjórnskipulag, sem byggt hefur verið upp í kringum flutningsjöfnunarsjóð olíuvara, afnumið og hætt verður að leggja sérstakt flutningsjöfnunargjald á allar olíuvörur, sem fluttar eru til landsins og ætlaðar eru til nota innanlands. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun. Lagt er til að veitt verði lagastoð fyrir því fyrirkomulagi að Byggðastofnun annist úthlutun styrkja vegna flutningskostnaðar olíuvara. Einnig er lagt til að styrkir verði veittir til söluaðila sem starfrækja sölustaði á svæðum, sem standa höllum fæti í byggðalegu tilliti og búa við skerta samkeppni af landfræðilegum og lýðfræðilegum ástæðum. Að auki er gert ráð fyrir að Byggðastofnun annist úthlutun styrkja og að þeir verði ákvarðaðir í samræmi við þá heildarfjárhæð sem fyrirhugað er að veita til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara í fjárlögum ár hvert, selt magn olíuvara á viðkomandi sölustað og staðsetningu sölustaðar í byggðalegu tilliti með sérstökum byggðastuðli fyrir hvert svæði eða byggðalag fyrir sig, sem ákvarðaður skal í reglugerð.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011.

Við gildistöku laganna falla úr gildi lög um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, nr. 103/1994.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir neinum áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með fáeinum breytingum.


Síðast breytt 03.07.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.