Samantekt um þingmál

Heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu

735. mál á 150. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að koma á fót sérstöku félagi sem mun halda utan um fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum og hrinda þeirri uppbyggingu í framkvæmd, þ.m.t. innviðum almenningssamgangna, til 15 ára. Að stuðla að auknum lífsgæðum á höfuðborgarsvæðinu með uppbyggingu skilvirkra, hagkvæmra, öruggra og umhverfisvænna samgönguinnviða.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að ráðherra sé heimilt að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu með Reykjavíkurborg, Garðabæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Kópavogsbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ. Kveðið er á um hlutverk og verkefni félagsins, sem snýr að utanumhaldi og uppbyggingu samgönguinnviða, sem áætlað er að standi a.m.k. fram til ársins 2033. Þá er einnig að finna ákvæði um hlutafé, stjórn, heimildir til lántöku og slit félagsins ásamt ákvæðum um heimildir félagsins til samningsgerðar um uppbyggingu innviða og ákvæði um yfirtöku og þróun lands í eigu ríkisins.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög.

Kostnaður og tekjur

Beint heildarframlag ríkisins er áætlað 45 milljarðar kr. að lágmarki til og með 2033. Bein framlög sveitarfélaganna verða samtals einn milljarður kr. á ári eða 15 milljarðar kr. á tímabilinu, þ.e. til og með 2033. Samkvæmt samgöngusáttmálanum er gert ráð fyrir að flýti- og umferðargjöld verði tekin upp með sérstakri lagasetningu til að standa undir hluta af fjármögnun verkefnisins eða um 60 (nettó) milljarðar kr. Er gjöldunum ætlað að standa straum af stofnframkvæmdum, fjármögnun og afleiddum kostnaði. Aðrir fjármögnunarkostir verða þó einnig skoðaðir samhliða orkuskiptum og endurskoðuð skattlagning á ökutæki og eldsneyti, enda raski það ekki fjármögnun framkvæmdaáætlunar. Í stað flýti- og umferðargjalda kemur einnig til greina að ríkið fjármagni þennan hluta uppbyggingarinnar með sérstökum framlögum vegna eignasölu.

Afgreiðsla

Samþykkt með lítils háttar breytingu.

Aðrar upplýsingar

Sáttmáli um uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.


Síðast breytt 03.07.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.