Samantekt um þingmál

Tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar

814. mál á 150. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að koma á fót tímabundnu úrræði, sem flest fyrirtæki geti nýtt sér og þar með verið í greiðsluskjóli á meðan unnið er að fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til nýtt úrræði um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja. Auk þess eru lagðar til varanlegar breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. þess efnis að nauðasamningur geti einnig náð til samningsveðkrafna. Verði frumvarpið að lögum munu atvinnufyrirtæki geta nýtt sér úrræðið og komist í greiðsluskjól í allt að eitt ár. Á þeim tíma verður ekki komið fram vanefndaúrræðum auk þess sem greiðslur munu ekki fara fram á gjalddögum krafna. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku þeirra verða breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

Kostnaður og tekjur

Erfitt er að meta fjárhagsleg áhrif frumvarpsins en gangi markmið þess eftir þykir ljóst að til lengri tíma verði fjárhagslegur og samfélagslegur ávinningur mun meiri en hugsanleg tímabundin neikvæð áhrif frumvarpsins. 

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum.

Aðrar upplýsingar

Framhald hlutastarfaleiðar og aukinn stuðningur við fyrirtæki--tillögur ríkisstjórnarinnar, sem kynntar voru 28. apríl 2020.


Síðast breytt 19.06.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.