Samantekt um þingmál

Húsnæðismál

926. mál á 150. löggjafarþingi.
Félags- og barnamálaráðherra.

Markmið

Að auðvelda ungu fólki og tekjulágum fyrstu skrefin á fasteignamarkaði og auka hvata fyrir byggingaraðila til að byggja hagkvæmt íbúðarhúsnæði sem hentar þessum hópum.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði heimilað að veita nýja tegund lána, svonefnd hlutdeildarlán, þannig að þeir einstaklingar sem uppfylli ákveðin skilyrði geti fengið lán til þess að brúa kröfu um eigið fé við fasteignakaup. Úrræðið yrði eingöngu fyrir tekjulága fyrstu kaupendur, sem standast greiðslumat en eiga ekki eða geta ekki safnað fyrir útborgun. Meginreglan er sú að lántaki þarf að standast greiðslumat fyrir láni (sem væri á fyrsta veðrétti) sem nemur 75% kaupverðs og er að jafnaði ekki til lengri tíma en 25 ára. Gert er ráð fyrir að kaupandi leggi út að lágmarki 5% eigið fé og taki 20% hlutdeildarlán sem fer á annan veðrétt. Lagt er til að hlutdeildarlán verði eingöngu veitt vegna nýs húsnæðis en ekki verði heimilt að kaupa hvaða íbúðarhúsnæði sem er með hlutdeildarláni. 

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um húsnæðismál, nr. 44/1998.

Kostnaður og tekjur

Miðað er við að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði heimilt að lána samtals fyrir um 4 milljarða kr. á ári eða alls 40 milljarða kr. á tíu ára tímabili. Byggir sú áætlun á að lánað verði til kaupa á um 400 hagkvæmum íbúðum á ári. Útlán stofnunarinnar yrðu fjármögnuð með láni úr ríkissjóði sem fjármagnað yrði með skuldabréfaútboði ríkissjóðs. Kostnaður ríkissjóðs við úrræðið getur breyst eftir þróun húsnæðisverðs. Því er gert ráð fyrir að lagður verði 1 milljarður kr. á ári í varasjóð til að girða fyrir þörf fyrir viðbótarframlög í framtíðinni. Á móti verði framlög til vaxtabóta lækkuð um sömu fjárhæð en lækkuninni beint að hærri tekjuhópum. Miðað við fyrrgreindar forsendur mun Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eignast kröfur sem nema um 20% hlut í 400 íbúðum á ári í tíu ár eða alls 4.000 íbúðum á tímabilinu. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun endurgreiðir ríkissjóði lánin við sölu eignar eða í síðasta lagi eftir 25 ár.

Afgreiðsla

Samþykkt með talsverðum breytingum. Áréttað var að lögin eigi að gilda bæði um hjón og sambúðarfólk og að skráð sambúð sé ekki skilyrði. Ákvæði vegna tekjuviðmiða vegna barna eða ungmenna fram að 20 ára aldri, sem búa á heimilinu, var útvíkkað þannig að það nái einnig til þeirra barna og ungmenna sem eru á framfæri umsækjanda. Viðmiðum um stærðarmörk fjölskyldu við úthlutun hlutdeildarláns var breytt þannig að með hagkvæmum íbúðum sé átt við íbúðir sem m.a. taka mið af herbergjafjölda miðað við stærð og þarfir fjölskyldu umsækjanda. Heimilað var að veita hlutdeildarlán til kaupa á hagkvæmum íbúðum í eldra húsnæði á landsbyggðinni, sem hlotið hefur gagngerar endurbætur, enda sé ástand þeirra þannig að jafna megi til nýrrar íbúðar. Þá var samþykkt sú breyting að almennt skuli úthluta að lágmarki 20% hlutdeildarlána á ársgrundvelli til kaupa á hagkvæmu íbúðarhúsnæði utan höfuðborgarsvæðisins.

Aðrar upplýsingar

Lífskjarasamningurinn 2019-2022 (kynning).Síðast breytt 07.09.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.