Samantekt um þingmál

Tekjufallsstyrkir

212. mál á 151. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við litla rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að einstaklingar og litlir lögaðilar í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi sem hafa orðið fyrir minnst 50% tekjufalli á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september 2020, samanborið við sama tímabil 2019, vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eða aðgerða stjórnvalda til að hefta útbreiðslu hennar geti fengið styrk til að mæta rekstrarkostnaði á tímabilinu.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020.
  • Skylt mál: Viðspyrnustyrkir, 334. mál (fjármála- og efnahagsráðherra) á 151. þingi (24.11.2020)

Kostnaður og tekjur

Heildaráhrif á ríkissjóð eru óljós þar sem ekki er vitað hversu margir einyrkjar og lítil fyrirtæki munu uppfylla öll skilyrði frumvarpsins og sækja um styrkinn.

Að teknu tilliti til breytingartillagna nefndarinnar, sem samþykktar voru, þá áætlar fjármála- og efnahagsráðuneytið að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna tekjufallsstyrkja verði að hámarki 23,3 milljarðar kr.

Afgreiðsla

Samþykkt með miklum breytingum.

Viðmiðunartímabil fyrir tekjufallsstyrki var lengt um einn mánuð, þ.e. til 31. október 2020. Fallið var frá kröfu um hámarksfjölda launamanna hjá rekstraraðilum og geta því allir rekstraraðilar sótt um tekjufallsstyrk að því gefnu að þeir uppfylli önnur skilyrði fyrir styrkveitingu. Þá miðast fjárhæð tekjufallsstyrks, sem rekstraraðili getur átt rétt á, við meðalfjölda stöðugilda á mánuði á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 en styrkur verður greiddur að hámarki vegna fimm stöðugilda. Krafan um tekjufall var lækkuð úr 50% í 40% og í stað þess að miða við tekjur rekstraraðila við sömu mánuði ársins 2019 og á þessu ári var samþykkt að miða við meðaltekjur á sjö mánaða tímabili á árinu 2019. Hafi rekstraraðili hlotið lokunarstyrk samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 má draga hann frá tekjum rekstraraðila á því tímabili þegar tekjufall hans er metið. Fallið var frá skilyrði um lágmarkstekjur rekstraraðila vegna umsóknar um tekjufallsstyrk. Fjárhæð tekjufallsstyrks skal að meginreglu vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020, þó þannig að hún geti aldrei orðið hærri en sem nemur tekjufalli rekstraraðila á tímabilinu. Rekstraraðili skal draga frá stuðning sem hann kann að hafa hlotið samkvæmt lögum um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, nr. 50/2020, að því marki sem hann hefur hlotið slíkan stuðning vegna launa á sama tímabili. Skatturinn skal birta opinberlega upplýsingar um hverjum hefur verið ákvarðaður tekjufallsstyrkur.


Síðast breytt 09.11.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.