Samantekt um þingmál

Schengen-upplýsingarkerfið á Íslandi

266. mál á 151. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að tryggja öryggi á Íslandi og Schengen-svæðinu í heild, þ.m.t. almannaöryggi, allsherjarreglu og öryggi ríkisins. 

Helstu breytingar og nýjungar

Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga þar sem lagt er til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar til að innleiða þrjár reglugerðir Evrópusambandsins um Schengen-upplýsingakerfið. Í frumvarpinu er með mun ítarlegri hætti kveðið á um einstaka þætti upplýsinga­kerfis­ins, notkun þess og vinnslu upplýsinga en í núgildandi lögum. Þá felur frumvarpið í sér að við bætast nýjar upplýsingar sem heimilt er að skrá í kerfið, öryggi kerfisins er almennt aukið og reglur um persónuvernd eru styrktar.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, nr. 16/2000.

Kostnaður og tekjur

Ekki er hægt að leggja nákvæmt mat á heildarkostnað við lagasetninguna vegna þeirrar óvissu sem til staðar er um fjárfestingar í Schengen-upplýsingakerfunum. Fyrirliggjandi áætlanir gera ráð fyrir að fjárfesta þurfi fyrir 2.200 milljónir kr. í nýjum upplýsingakerfum og endurnýjun á þeim eldri og þau verði að hluta til fjármögnuð með fjárveitingum á fjárlögum 2019 og 2020. Varanlegur rekstrarkostnaður er áætlaður 20–32 milljónir kr. til að mæta kostnaði upplýsingatæknideildar ríkislögreglustjóra vegna reksturs upplýsingakerfa frá og með árinu 2022.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum. Skilgreiningunni á „sjálfviljugri brottför“ var breytt í samræmi við skilgreiningu Evróputilskipunar nr. 2008/115/EB. Jafnframt var hugtakinu breytt í „brottför af frjálsum vilja“.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1860 frá 28. nóvember 2018 um notkun Schengen-upplýsingakerfisins við endursendingu ríkisborgara þriðju landa sem dvelja ólöglega í aðildarríkjunum.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1861 frá 28. nóvember 2018 um stofnsetningu, rekstur og notkun Schengen-upplýsingakerfisins (SIS) á sviði landamæraeftirlits og um breytingu á samningnum um framkvæmd Schengen-samkomulagsins og um breytingu og niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 1987/2006.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1862 frá 28. nóvember 2018 um stofnsetningu, rekstur og notkun Schengen-upplýsingakerfisins (SIS) á sviði lögreglusamvinnu og dómsmálasamstarfs í sakamálum, um breytingu og niðurfellingu ákvörðunar ráðsins 2007/533/DIM og um niðurfellingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1986/2006 og ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2010/261/ESB.


Síðast breytt 17.05.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.