Samantekt um þingmál

Umferðarlög

280. mál á 151. löggjafarþingi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Markmið

Að lagfæra vankanta á lögunum, koma í veg fyrir aukna stjórnsýslubyrði og kostnað borgara, einfalda ferli við veitingu tiltekinna undanþágna frá reglum, skýra orðalag tiltekinna lagaákvæða og greiða fyrir innleiðingu reglugerðar Evrópusambandsins.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að hámarkshraði í vistgötum verði hækkaður úr 10 km á klst. í 15 km á klst. Þá er lagt til að veghaldara verði veitt sérstök heimild til að leyfa akstur íbúa og rekstraraðila um göngugötur til og frá lóð þeirra. Gert er ráð fyrir að skráningarskylda eftirvagna sem gerðir eru fyrir 750 kg heildarþyngd eða minna verði afnumin. Einnig er lagt til að heimilt verði að beita sektum ef hjólreiðamaður brýtur gegn ákvæðum um undanþáguheimildir fyrir hjólreiðamenn. Að auki er lagt til að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) verði veitt heimild til að leggja gjald á framleiðendur ökutækja, sem ekki uppfylla viðmið um hámarksútblástur koltvísýrings, svo að hægt sé að innleiða reglugerð (ESB) nr. 2019/631 í íslenskan rétt.

Breytingar á lögum og tengd mál

Umferðarlög, nr. 77/2019.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir óverulegum áhrifum á tekjur ríkisins.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum, m.a. þeirri að skráningarskylda á léttum bifhjólum í flokki I var afnumin.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/631 frá 17. apríl 2019 um að setja staðla um frammistöðu vegna losunar koltvísýrings fyrir nýjar fólksbifreiðar og ný, létt atvinnuökutæki og um niðurfellingu reglugerða (EB) nr. 443/2009 og (ESB) nr. 510/2011.


Síðast breytt 17.05.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.