Samantekt um þingmál

Upplýsingaskylda útgefenda verðbréfa og flöggunarskylda

341. mál á 151. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að tryggja gagnsæi upplýsinga um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað til að stuðla að vernd fjárfesta og skilvirkni markaðarins.

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpið felur í sér innleiðingu á gagnsæistilskipun ESB auk ákvæða tveggja annarra Evróputilskipana. Gagnsæistilskipunin mælir einkum fyrir um samræmingu reglna um birtingu reglulegra upplýsinga um útgefendur verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og um birtingu upplýsinga um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar eða eignarhaldi í slíkum útgefendum. Með frumvarpinu er lagt til að um reglubundna og viðvarandi upplýsingaskyldu útgefanda verðbréfa og flöggunarskyldu gildi sérlög og hliðstæð ákvæði í lögum um verðbréfaviðskipti verði felld brott. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með birtingu upplýsinga í samræmi við ákvæði frumvarpsins og til þess hafi það sambærilegar eftirlits- og viðurlagaheimildir og í öðrum sérlögum á fjármálamarkaði.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, og lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir verulegum áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með breytingum sem voru að mestu tæknilegs eðlis.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB (gagnsæistilskipunin).

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB frá 24. nóvember 2010 um breytingu á tilskipunum 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin).

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/50/ESB frá 22. október 2013 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar, og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/14/EB um nákvæmar reglur til framkvæmdar tilteknum ákvæðum tilskipunar 2004/109/EB.


Síðast breytt 18.03.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.