Samantekt um þingmál

Fjölmiðlar

367. mál á 151. löggjafarþingi.
Mennta- og menningarmálaráðherra.

Markmið

Að efla einkarekna fjölmiðla til að gera þeim betur kleift að sinna hlutverki sínu í nútímalýðræðissamfélagi.

Helstu breytingar og nýjungar

Gert er ráð fyrir að ríkið veiti styrki sem miðast við allt að 25% af kostnaði viðkomandi fjölmiðils við öflun og miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni hér á landi.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um fjölmiðla, nr. 38/2011.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður ríkissjóðs frá 1. janúar 2021 verði allt að 400 milljónum kr.

Afgreiðsla

Samþykkt með allnokkrum breytingum. Bætt var við skilyrði um rekstrarstuðning sem kveður á um lágmarksútgáfutíðni fjölmiðla. Þannig skal miðað við að prentmiðlar komi út a.m.k. 20 sinnum á ári en netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skulu miðla nýjum fréttum, fréttatengdu efni eða umfjöllun um samfélagsleg málefni á virkum dögum í 20 vikur á ári. Því skilyrði fyrir stuðningi að aðeins fjölmiðlar sem starfað hafa með leyfi frá fjölmiðlanefnd óslitið í 12 mánuði eða lengur var breytt í skráningarskyldu hjá nefndinni. Launakostnaður umbrotsfólks var fellt undir endurgreiðsluhæfan kostnað. Með hliðsjón af tilteknum sjónarmiðum í nefndaráliti meiri hlutans og þeirri endurskoðun sem á sér stað á skattlagningu erlendra efnis- og streymisveitna var ákveðið var að gera stuðningskerfið tímabundið með gildistíma til 31. desember 2022.

Aðrar upplýsingar




Síðast breytt 26.05.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.