Samantekt um þingmál

Vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

368. mál á 151. löggjafarþingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Markmið

Að villtir fuglar og villt spendýr fái að þróast eftir eigin lögmálum; að tryggja friðun, vernd, viðgang og velferð villtra fugla og villtra spendýra; að ekki sé gengið á líffræðilega fjölbreytni og búsvæði villtra fugla og villtra spendýra í þeim mæli að það ógni viðgangi þeirra; að verndarstöðu villtra fugla og villtra spendýra sé ekki spillt með umsvifum manna eða framandi lífverum sem ógnað gætu viðgangi þeirra; að veiðar og önnur nýting á villtum dýrum sé sjálfbær og byggist á vísindalegum, faglegum og haldbærum upplýsingum um stofnstærð, stofnþróun, náttúruleg afföll, veiðiþol og veiði viðkomandi tegundar eða stofns; að treysta eftirlit með veiðum og efla virka stýringu veiða á þeim villtu fuglum og villtu spendýrum sem lög þessi taka til; og að uppfylla skuldbindingar alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að og varða efni laga þessara.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að aukin áhersla verði lögð á alhliða vernd villtra fugla og villtra spendýra og helstu búsvæða þeirra sem og á dýravernd og velferð villtra fugla og villtra spendýra. Þá er lagt til að komið verði til móts við sérstakar þarfir veiðimanna sem varanlega eru bundnir við notkun á hjólastól þannig að þeir hafi eins og kostur er möguleika á að stunda veiðar eins og aðrir. Einnig eru lagðar til breytingar á þeim veiðitækjum sem óheimilt er að nota. Gert er ráð fyrir að válistar vegna villtra fugla og villtra spendýra verði lögfestir. Að auki er gert ráð fyrir að gerðar verði stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir allar tegundir eða stofna villtra fugla og villtra spendýra. Lagt er til að ákvarðanir um vernd og veiðar á grundvelli laganna byggi á vísindalegum og faglega unnum stjórnunar- og verndaráætlunum. Þá er lagt til að allar nytjaveiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum verði sjálfbærar. Að auki er lagt til að veiðistjórnun og veiðieftirlit verði lögfest fyrir allar tegundir veiða á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þá er gert ráð fyrir að sala á veiðifangi villtra fugla og villtra spendýra byggist á því að umræddur veiðistofn þoli slíka sölu með sjálfbærum hætti.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að viðbótarkostnaður Náttúrufræðistofnunar Íslands verði um 15 milljónir kr. og Umhverfisstofnunar á bilinu 45-50 milljónir kr. og að hann rúmist innan fjárheimilda á málefnaviði 17 Umhverfismál.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.

Aðrar upplýsingar

Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra. Lagaleg og stjórnsýsluleg staða og tillögur um úrbætur. Nefnd um lagalega stöðu villtra fugla og spendýra, skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra, 3. apríl 2013.


Síðast breytt 24.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.