Samantekt um þingmál

Hálendisþjóðgarður

369. mál á 151. löggjafarþingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Markmið

Að vernda náttúru og sögu þjóðgarðsins, svo sem landslag, víðerni, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar og tryggja tilvist heildstæðra vistkerfa og náttúrulegra ferla; að gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru, menningar og sögu þjóðgarðsins; að auðvelda almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist; að stuðla að því að almenningur geti stundað útivist innan þjóðgarðsins í sátt við náttúru og menningarminjar; að leitast við að efla samfélag og styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins og á landinu öllu, meðal annars með því að hvetja til sjálfbærrar nýtingar á gæðum svæðisins; að þjóðgarðurinn verði vettvangur umræðu og ákvarðanatöku um landnýtingu innan þjóðgarðs og þróun hennar; að stuðla að rannsóknum og fræðslu um þjóðgarðinn og ýta undir aukinn skilning almennings á gæðum og sérstöðu hans; að endurheimta vistkerfi sem hafa raskast; að varðveita þjóðlendur í þjóðgarði og viðhalda virði þeirra í náttúrufarslegu og menningarlegu tilliti; og að stuðla að samvinnu og samstarfi við félög og sjálfboðaliða um málefni landsvæðisins.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að ráðherra verði heimilt að friðlýsa tiltekið landsvæði á miðhálendinu sem þjóðgarð (Hálendisþjóðgarður). Gert er ráð fyrir að Hálendisþjóðgarður verði sjálfstæð ríkisstofnun með forstjóra og stjórn. Lagt er til að þjóðgarðinum verði skipt í rekstrarsvæði þar sem umdæmisráð marki stefnu og fari með umsjón hvers rekstrarsvæðis, þ.m.t. meginákvarðanir um landnýtingu í stjórnunar- og verndaráætlun. Lagt er til að stjórn þjóðgarðsins marki stefnu í málefnum hans í heild og staðfesti áætlanir og ákvarðanir umdæmisráða. Gert er ráð fyrir að önnur efnisákvæði verði að mestu leyti þau sömu fyrir Hálendisþjóðgarð og eru í gildandi lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, t.d. um stjórnunar- og verndaráætlun, almennar meginreglur um háttsemi í þjóðgarðinum, starfsemi í þjóðgarðinum, atvinnustefnu, landnýtingu, þjónustu auk almennra reglna um eftirlit og valdheimildir vegna þess.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna falla úr gildi lög um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007, og jafnframt verða breytingar á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013.

Kostnaður og tekjur

Árlegur rekstrarkostnaður er áætlaður um 600–700 milljónir kr. á ári þegar þjóðgarðurinn verður komin í fullan rekstur og gert er ráð fyrir að auknar sértekjur geti verið 100–200 milljónir kr. Í fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2020–2024 er gert ráð fyrir stigvaxandi fjárveitingum á árunum 2021–2023. Gert er ráð fyrir að þessar auknu fjárveitingar muni standa undir þeim viðbótarrekstrarkostnaði sem hlýst af stofnun Hálendisþjóðgarðs.

Afgreiðsla

Málinu var vísað til ríkisstjórnarinnar eftir 2. umræðu.

Aðrar upplýsingar

Forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Lokaskýrsla nefndar. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, 7. nóvember 2017.



Síðast breytt 24.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.