Samantekt um þingmál

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands

466. mál á 151. löggjafarþingi.
Katrín Jakobsdóttir.

Markmið

Að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands endurspegli sem best sameiginleg grunngildi þjóðarinnar og renni traustum stoðum undir lýðræðislegt réttarríki þar sem vernd mannréttinda er tryggð.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að ákvæði um umhverfisvernd og þjóðareign á auðlindum bætist við mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Þá er lagt til að íslensk tunga og íslenskt táknmál fái sess í stjórnarskrá landsins. Að auki er lögð til endurskoðun á II. kafla stjórnarskrárinnar um forseta og framkvæmdarvald. Ákvæðið um umhverfisvernd fjallar annars vegar um íslenska náttúru og vernd hennar; nánar tiltekið um gildi náttúrunnar, ábyrgð á vernd hennar og meginsjónarmið og áherslur náttúruverndar. Hins vegar lýtur það að gæðum og réttindum sem almenningur skal njóta. Ákvæðið um náttúruauðlindir fjallar bæði almennt um auðlindir í náttúru Íslands þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra nýtingu til hagsbóta fyrir landsmenn en sjónum er einnig beint að auðlindum sem eru á forræði ríkisins. Tillögur frumvarpsins um breytingar á II. kafla stjórnarskrárinnar eiga það sammerkt að uppfæra ýmis ákvæði og skýra betur án mikilla efnisbreytinga. Þannig er lagt til að þingræðisreglan verði fest í stjórnarskrá og kveðið nánar á um þingrof, heimildir starfsstjórna og forystuhlutverk forsætisráðherra. Þá er einnig að finna ýmis nýmæli eins og varðandi forsetakjör, lengd kjörtímabils forseta (sex ár í stað fjögurra) og hámarksfjölda þeirra, ábyrgð forseta og ráðherra og forræði Alþingis á samkomutíma sínum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Kostnaður og tekjur

Kemur ekki fram í frumvarpi.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.

Aðrar upplýsingar

Efni um stjórnarskrármál á vef Alþingis.


Síðast breytt 28.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.