Samantekt um þingmál

Ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur

505. mál á 151. löggjafarþingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Markmið

Að samræma lagaákvæði sem styðja betur við myndun hringrásarhagkerfisins.

Helstu breytingar og nýjungar

Gerð er tillaga að markmiðum laganna til samræmis við markmið hringrásarhagkerfisins um lágmörkun á auðlindanotkun og úrgangsmyndun. Lögð er til hækkun á skilagjaldi á hverja umbúðaeiningu þannig að gjaldið verði 18 kr. á einingu í stað 16 kr. Einnig eru lagðar til breytingar á umsýsluþóknun umbúða. Þá er gert ráð fyrir að Endurvinnslan hf. hefji markvissa vinnu við endurvinnslu glers á árinu 2021. Lagt er til að aðilar sem selja farþegum og áhöfnum millilandafara vörur úr tollfrjálsri verslun við brottför frá landinu skuli leggja á og greiða skilagjald og umsýslugjald eins og um væri að ræða sölu einnota drykkjarvöruumbúða innan lands.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir óverulegum áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með fáeinum breytingum. Drykkjarvöruumbúðir fyrir létt og sterkt vín sem selt er úr tollfrjálsri verslun við brottför frá landinu voru undanskildar skila- og umsýslugjaldi. Einnig var fallið frá því að gjaldskylda næði til sendiráða og alþjóðastofnana sem flytja inn vörur í gjaldskyldum umbúðum.


Síðast breytt 28.04.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.