Samantekt um þingmál

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

561. mál á 151. löggjafarþingi.
Félags- og barnamálaráðherra.

Markmið

Að samræma ákvæði laganna við frumvarp til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og aðlaga hlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins að þeirri þróun sem orðið hefur innan málaflokksins frá því að núgildandi lög tóku gildi.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að nafni stofnunarinnar verði breytt í Greiningar- og ráðgjafarstöð. Einnig er lagt til að uppfæra skilgreiningar laganna til samræmis við nýja löggjöf og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá eru lagðar til breytingar sem tengjast auknu samstarfi og samþættingu þjónustu í þágu barna. Lögð er rík áhersla á að ryðja í burtu hindrunum sem kunna að vera á því að börn njóti þjónustu sem þau eiga rétt á og að samvinna þjónustukerfa sé best til þess fallin að stuðla að því að barn fái þjónustu við hæfi. Gert er ráð fyrir að Greiningar- og ráðgjafarstöð fái heimildir til að setja reglur um fyrirkomulag svokallaðra frumgreininga sem þjónustuveitendum ber að fylgja. Þá er lagt til að þeir hópar sem fá þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar verði skilgreindir betur og skyldur stofnunarinnar gagnvart þeim verði skýrðar. Loks er lagt til að hlutverk stofnunarinnar gagnvart þjónustuveitendum verði skilgreint betur.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, nr. 83/2003.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með þeirri breytingu helstri að nafni stofnunarinnar var breytt í Ráðgjafar- og greiningarstöð.

Aðrar upplýsingar

Viljayfirlýsing um aukið samstarf í þágu barna. Félagsmálaráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, 7. september 2018.

Þingmannanefnd um málefni barna. Félagsmálaráðuneytið, 8. október 2018.

Stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna. Félagsmálaráðuneytið, 22. janúar 2019.


Síðast breytt 24.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.