Samantekt um þingmál

Aðgerðir gegn markaðssvikum

584. mál á 151. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að stuðla að heilleika fjármálamarkaða og efla fjárfestavernd og traust fjárfesta á fjármálamörkuðum.

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um markaðssvik og með því er lagt til að ákvæði reglugerðar (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik verði innleidd. Meginumfjöllunarefni reglugerðarinnar er aðgerðir gegn markaðssvikum og opinber birting innherjaupplýsinga af hálfu útgefenda. Reglugerðin gildir um alla fjármálagerninga sem viðskipti eru með á skipulegum markaði, markaðstorgi fjármálagerninga eða skipulegu markaðstorgi og hvers konar hegðun og aðgerðir sem gætu haft áhrif á slíkan fjármálagerning án tillits til þess hvort hegðunin eða aðgerðirnar eiga sér stað á viðskiptavettvangi eða ekki. Hið sama á við um fjármálagerninga sem óskað hefur verið eftir að teknir séu til viðskipta á skipulegum markaði eða markaðstorgi fjármálagerninga.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög en við gildistöku þeirra verða breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum. Helsta breytingin var sú að kveðið var á um að Seðlabanki Íslands væri lögbært yfirvald í skilningi reglugerðar (ESB) nr. 596/2014 í stað Fjármálaeftirlitsins.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014 frá 16. apríl 2014 um markaðssvik (reglugerð um markaðssvik) og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB og tilskipunum framkvæmdastjórnarinnar 2003/124/EB, 2003/125/EB og 2004/72/EB.


Síðast breytt 26.05.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.