Samantekt um þingmál

Tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi

604. mál á 151. löggjafarþingi.
Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið

Að koma til móts við athugasemdir í skýrslu Ríkisendurskoðunar og framlengja gildistíma laganna.

Helstu breytingar og nýjungar

Meginefni frumvarpsins lýtur að athugasemdum um endurgreiðslukerfið í skýrslu Ríkisendurskoðunar og snýr frumvarpið að bættri ráðstöfun opinbers fjár, eflingu eftirlits og því að skýra það endurgreiðslukerfi sem er í gildi. Þá felur frumvarpið í sér þrengingu á hugtakinu framleiðslukostnaður sem gerir það að verkum að við mat á endurgreiðslu er ekki aðeins horft til þess hvaða kostnaðarliðir falla undir endurgreiðslustofn í skilningi tekjuskattslaga heldur er enn fremur afmarkað sérstaklega hvaða kostnaðarliðir teljast vera framleiðslukostnaður sem myndar stofn til endurgreiðslu og hverjir ekki. Gert er ráð fyrir að lögin verði framlengd um fjögur ár eða til 31. desember 2025.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir beinum áhrifum á tekjur eða útgjöld ríkissjóðs. Þó er líklegt að dregið geti úr fjárhæð endurgreiðslna vegna einstakra verkefna þar sem betur er skilgreint hvaða framleiðslukostnaður myndar stofn til endurgreiðslu og eftirlit með kostnaðaruppgjörum verkefna er eflt. Erfitt er að fullyrða um þau áhrif og verður reynslan að leiða í ljós hver áhrifin verða til lengri tíma.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Endurgreiðslukerfi kvikmynda. Ríkisendurskoðun, 30. október 2019.


Síðast breytt 25.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.