Samantekt um þingmál

Markaðir fyrir fjármálagerninga

624. mál á 151. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að tryggja gagnsæi, efla fjárfestavernd, auka traust fjárfesta, fylla í gloppur á regluverki og tryggja að eftirlitsstofnanir hafi nægar valdheimildir til að sinna verkefnum sínum. 

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um markaði fyrir fjármálagerninga. Lagt er til að ákvæði tilskipunar 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID2) og reglugerð ESB 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFIR) verði innleidd í íslenskan rétt. Lagðar eru til umfangsmiklar breytingar hvað varðar þær kröfur sem gerðar eru til skipulegra markaða, markaðstorga fjármálagerninga og verðbréfafyrirtækja. Meðal annars eru gerðar auknar kröfur til gagnsæis, um fjárfestavernd og viðskiptahætti, til stjórnar, stjórnarhátta og almennt um skipulag verðbréfafyrirtækja og skipulegra markaða. Einnig eru lagðar til ýmsar breytingar til að bregðast við þróun á markaði og tækninýjungum síðan tilskipun 2004/39/EB (MiFID1) var innleidd.

Breytingar á lögum og tengd mál

Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um kauphallir, nr. 110/2007. Við gildistöku laganna verða jafnframt breytingar á 24 öðrum lögum.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB frá 15. maí 2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipun 2002/92/EB og tilskipun 2011/61/ESB (endurútgefin) (MiFID II).

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1034 frá 23. júní 2016 um breytingu á tilskipun 2014/65/ESB um markaði fyrir fjármálagerninga.

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 600/2014 frá 15. maí 2014 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012 (MiFIR).

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/1033 frá 23. júní 2016 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga, reglugerð (ESB)
nr. 596/2014 um markaðssvik og reglugerð (ESB) nr. 909/2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar.

Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/565 frá 25. apríl 2016 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/65/ESB að því er varðar skipulagskröfur og rekstrarskilyrði verðbréfafyrirtækja og hugtök sem skilgreind eru að því er varðar þá tilskipun.

Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2017/567 frá 18. maí 2016 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 600/2014 að því er varðar skilgreiningar, gagnsæi, samþjöppun eignasafns og eftirlitsráðstafanir hvað varðar afurðainngrip og stöður.


Síðast breytt 25.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.