Samantekt um þingmál

Hjúskaparlög

646. mál á 151. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að samræma hjúskaparlögin alþjóðlegum tilmælum og viðhorfum varðandi lágmarksaldur til þess að ganga í hjúskap. Að bæta gæði könnunar á hjónavígsluskilyrðum og samræma framkvæmdina. Að bregðast við gagnrýni á gildandi löggjöf um lögsögu í skilnaðarmálum og að samræma lögin þeim reglum sem um þetta gilda annars staðar á Norðurlöndunum.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að afnumin verði undanþáguheimild frá því að einstaklingur yngri en 18 ára megi ganga í hjúskap. Einnig er lagt til að lögfesta meginreglu um viðurkenningu hjónavígslu sem stofnað er til erlendis. Lagt er til að hjónavígslur einstaklinga yngri en 18 ára sem fara fram erlendis verði ekki viðurkenndar hér á landi nema samkvæmt ströngum undanþágum. Þá er gert ráð fyrir að könnun hjónavígsluskilyrða fari einungis fram hjá sýslumönnum, hvort sem hjónaefni eigi lögheimili hér á landi eða ekki. Enn fremur eru lagðar til breytingar varðandi lögsögu íslenskra stjórnvalda og dómstóla til þess að veita lögskilnað hér á landi í tilteknum tilvikum ef hvorugur aðili býr hér á landi og viðkomandi eru ekki íslenskir ríkisborgarar. Þá er lagt til að færa verkefni frá ráðuneytinu til sýslumanna.

Breytingar á lögum og tengd mál

Hjúskaparlög, nr. 31/1993.
Barnalög, nr. 76/2003.
Lögræðislög, nr. 71/1997.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.

Aðrar upplýsingar

Lög á Norðurlöndum

Danmörk
Bekendtgørelse af lov om ægteskabs indgåelse og opløsning (Ægteskabsloven)  LBK nr 771 af 07/08/2019.

Bekendtgørelse af lov om rettens pleje (Retsplejeloven)  LBK nr 1445 af 29/09/2020.
Sjá einkum gr. 448 f.

Finnland
Aktenskapslag  13.6.1929/234.

Noregur
Lov om ekteskap (ekteskapsloven)  LOV-1991-07-04-47.

Svíþjóð
Aktenskapsbalk ( 1987:230).


Síðast breytt 25.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.