Samantekt um þingmál

Kosningar til Alþingis

647. mál á 151. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að stuðla að öflugri og öruggri rafrænni þjónustu við frambjóðendur til Alþingis, stjórnmálaflokka, yfirkjörstjórnir og þá sem vilja mæla bæði með framboðum til Alþingis og úthlutun listabókstafs. Að bregðast við því ástandi sem kann hugsanlega að ríkja vegna COVID-19-farsóttarinnar þegar alþingiskosningar fara fram haustið 2021 þannig að þeim sem kunna að vera í sóttkví eða einangrun á kjördag verði gert kleift að kjósa.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar svo safna megi meðmælendum með framboðum og listabókstöfum með rafrænum hætti. Einnig er lagt til að unnt sé rita rafrænt undir tilkynningu stjórnmálasamtaka til yfirkjörstjórna um framboð og að sá sem hyggst bjóða sig fram geti ritað rafrænt undir yfirlýsingu sína um framboð. Þá eru lagðar til breytingar svo unnt verði að gera þeim sem eru í sóttkví kleift að greiða atkvæði utan kjörfundar.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.

Kostnaður og tekjur

Frumvarpið hefur þau kostnaðaráhrif fyrir ríkissjóð að breyta þarf núverandi meðmælenda- og undirskriftakerfi Þjóðskrár Íslands. Verkefnastofa um stafrænt Ísland hefur unnið grófa kostnaðargreiningu á verkefninu sem hljóðar upp á 15,8–23,7 milljónir kr. Verkefnastofan mun fjármagna 75% af heildarkostnaðinum er tengist viðmótshluta Ísland.is sem er áætlaður á bilinu 9,5–14 millj. kr. Gert er ráð fyrir því að þær 6,3–9,7 milljónir kr. sem út af standa fjármagnist af sameiginlegum kosningalið Stjórnarráðsins sem vistaður er hjá dómsmálaráðuneytinu.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.


Síðast breytt 07.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.