Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar

704. mál á 151. löggjafarþingi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Markmið

Að styrkja eftirlit Fiskistofu.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að heildstæðu viðurlagakerfi verði komið á fót vegna brota á lögum á sviði fiskveiðistjórnar. Viðurlagakaflar laganna verða samræmdir þannig að sömu heimildir verði milli mismunandi laga til að bregðast við brotum. Frumvarpið felur í sér það nýmæli að Fiskistofa fái heimildir til álagningar stjórnvaldssekta vegna brota á fiskveiðilöggjöfinni. Lagt er til að heimildir Fiskistofu til að framkvæma rafrænt eftirlit verði styrktar. Loks er lagt til að hugtakið raunveruleg yfirráð við framkvæmd reglna um hámarksaflahlutdeildir verði afmarkað betur.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996.
Lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
Lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997.
Lög um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998.
Lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996.
Lög um Fiskistofu, nr. 36/1992.
  • Skylt mál: Stjórn fiskveiða, 209. mál (sjávarútvegsráðherra) á 122. þingi (23.10.1997)

Kostnaður og tekjur

Til lengri tíma litið eru fjárhagsáhrif frumvarpsins jákvæð fyrir ríkissjóð þar sem stjórnvaldssektir munu renna í ríkissjóð. Ekki er hægt að segja til um hve mikil þau verða þar sem ekki hefur farið fram mat á umfangi álagningar stjórnvaldssekta auk þess sem reglunum er ætlað að hafa fælingar- og varnaðaráhrif til lengri tíma litið.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.

Aðrar upplýsingar


Eftirlit Fiskistofu. Skýrsla til Alþingis. Ríkisendurskoðun, desember 2018.


Síðast breytt 24.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.