Samantekt um þingmál

Hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

708. mál á 151. löggjafarþingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Markmið

Að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs sem og að leggja bann við urðun úrgangs sem hefur verið safnað sérstaklega til undirbúnings fyrir endurnotkun, endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar vegna innleiðingar fjögurra Evrópugerða. Breytingarnar fela í sér innleiðingu á hringrásarhagkerfinu og er sérstök áhersla lögð á að draga úr myndun úrgangs, samræmda flokkun og sérstaka söfnun, sem og bann við urðun tiltekins úrgangs. Samþykkt frumvarpsins hefði þannig í för með sér að einstaklingum og lögaðilum yrði gert skylt að flokka heimilisúrgang. Jafnframt eru lagðar til breytingar varðandi fram­leið­endaábyrgð á ákveðnum úrgangsflokkum í samræmi við lágmarkskröfur sem gerðar eru í tilskipun (ESB) 2018/854 til kerfa sem byggja á framlengdri framleiðendaábyrgð. Þá er lagt til að kveðið verði á um framleiðendaábyrgð á plastvörum og drifrafhlöðum.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
Lög um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003.
Lög um úrvinnslugjald, nr. 162/2002.

Kostnaður og tekjur

Gera má ráð fyrir einskiptiskostnaði við uppsetningu rafræns skráningarkerfis fyrir spilliefni hjá Umhverfisstofnun en nákvæmt kostnaðarmat liggur ekki fyrir.

Afgreiðsla

Samþykkt með nokkrum breytingum.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/850 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 1999/31/EB um urðun úrgangs.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/851 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 2008/98/EB um úrgang.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/852 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang.



Síðast breytt 25.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.