Samantekt um þingmál

Verndar- og orkunýtingaráætlun

709. mál á 151. löggjafarþingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Markmið

Að forgangsraða með tilteknum hætti landsvæðum þannig að ná megi fram tilteknu jafnvægi milli mikilvægra umhverfis-, samfélags- og efnahagslegra þátta við nýtingu vindorku. Að gera leyfisveitingarferli vegna nýtingar vindorku skilvirkara en nú er.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að sérstaklega verði kveðið á um vindorku í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun til að taka af allan vafa um að virkjunarkostir í vindorku, sem eru yfir 10MW eða meira að uppsettu afli, heyri undir lögin. Jafnframt er lagt til að slíkir virkjunarkostir sæti annarri málsmeðferð samkvæmt lögunum en hefðbundnir virkjunarkostir. Vegna séreðlis vindorkunnar eru því lagðar til talsverðar breytingar á úrvinnslu, meðhöndlun og málsmeðferð virkjunarkosta í vindorku frá því sem gildir um hina hefðbundnu orkukosti, jarðvarma og vatnsorku, auk breytinga á þeirri aðferðafræði sem gilt hefur um mat á virkjunarkostum í vindorku innan rammaáætlunar.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir viðbótarkostnaði fyrir ríkissjóð. Gert er ráð fyrir að sá óverulegi tímabundni og varanlegi kostnaður sem hlýst af breytingu á lögum um verndar og orkunýtingaráætlun rúmist innan fjárheimilda málefnasviðs 17 Umhverfismál.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.

Aðrar upplýsingar

Skýrsla starfshóps um regluverk í tengslum við starfsemi og framkvæmdir vegna vindorkuvera. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, október 2018.Síðast breytt 24.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið upplysing@althingi.is.