Samantekt um þingmál

Fjölmiðlar

717. mál á 151. löggjafarþingi.
Mennta- og menningarmálaráðherra.

Markmið

Að innleiða Evróputilskipun um breytingar á hljóð- og myndmiðlunartilskipun ESB.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til breytingar á lögum um fjölmiðla vegna innleiðingar á tilskipun 2018/1808/ESB um breytingar á tilskipun 2010/13/ESB um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu. Lagt er til að mynddeiliþjónusta falli að hluta undir lögsögu fjölmiðlanefndar og nýjar efnisreglur í fjölmiðlalögum. Einnig er lagt til að með ítarlegum reglum sé kveðið á um undir lögsögu hvaða EES-ríkis starfsemi mynddeiliveitna heyrir. Þá er gert ráð fyrir að kveðið verði á um ráðstafanir sem mynddeiliveitur þurfa að grípa til í því skyni að vernda börn og ungmenni fyrir efni og notendaframleiddu efni sem getur haft skaðleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðislegan þroska. Lagt er til að óheimilt verði að dreifa efni sem hvetur til ofbeldis, haturs og refsiverðs verknaðar. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæðum um upprunaland fjölmiðlaþjónustu og hvernig skuli bregðast við efni sem sjónvarpað er frá einu ríki en er beint til notenda í öðru ríki. Gert er ráð fyrir að sú krafa verði gerð að 30% af framboði myndefnis eftir pöntun verði evrópsk verk og auglýsingareglur rýmkaðar þannig að hámark auglýsinga verði 20% á tilteknum tímabilum en ekki bundið við 20% á klukkustund eins og nú gildir. Þá er gert ráð fyrir að fjölmiðlanefnd fái það hlutverk að gera áætlanir og ráðstafanir til að efla og þroska fjölmiðlalæsi almennings auk annarra verkefna er varða upplýsingagjöf til eftirlitsstofnunar EFTA og þátttöku í starfi samráðshóps evrópskra fjölmiðlaeftirlitsstofnana.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um fjölmiðla, nr. 38/2011.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir að bæta þurfi við einu stöðugildi hjá fjölmiðlanefnd. Þá kemur fram í frumvarpi að tryggja þurfi fjölmiðlanefnd nægilegt fjármagn til að sinna með viðeigandi hætti skyldu sinni að efla og þroska miðla- og upplýsingalæsi almennings en fjárhæðir eru ekki tilgreindar í frumvarpinu.

Afgreiðsla

Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.

Aðrar upplýsingar

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/1808 frá 14. nóvember 2018 um breytingar á tilskipun 2010/13/ESB um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu (tilskipun um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu).


Síðast breytt 16.06.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.